Vann föður sinn örugglega í úrslitum

Sofia Sóley Jónasdóttir og Rafn Kumar Bonifacius með Íslandsmeistarabikara sína …
Sofia Sóley Jónasdóttir og Rafn Kumar Bonifacius með Íslandsmeistarabikara sína eftir sigra í einliðaleik meistaraflokka kvenna og karla. Ljósmynd/Tennis.is

Íslandsmótinu í tennis innanhúss lauk í gær í Tennishöllinni í Kópavogi. 117 keppendur voru skráðir til leiks og voru þeir á aldrinum 6 til 63 ára þar sem keppt var í 23 mismunandi flokkum. 

Í einliðaleik í meistaraflokki kvenna vann Sofia Sóley Jónasdóttir úr Tennisfélagi Kópavogs Önnu Soffíu Grönholm, einnig úr Tennisfélagi Kópavogs, í úrslitaleiknum, 6:3 og 6:2, en Sofia Sóley er líka Íslandsmeistari utanhúss.   

Það sama var uppi á teningnum karlamegin; Íslandsmeistarinn utanhúss, Rafn Kumar Bonifacius úr Hafna- og mjúkboltafélagi Reykjavíkur, vann yfirburðasigur á föður sínum, Raj K. Bonifacius úr Víkingi úr Reykjavík, 6:1 og 6:2.

Sofia Sóley og Rafn Kumar létu ekki þar við sitja enda reyndust þau einnig hlutskörpust í tvíliðaleik. Sofía Sóley vann í tvíliðaleik meistaraflokks kvenna ásamt Iris Staub úr Tennisfélagi Kópavogs og Rafn Kumar vann í tvíliðaleik meistaraflokks karla ásamt Sigurbjarti Sturlu Atlasyni úr Hafna- og mjúkboltafélagi Reykjavíkur.

Tónlistarmaðurinn og leikarinn Sigurbjartur Sturla er betur þekktur undir listamannsnafni sínu, Sturla Atlas.

Áðurnefnd Iris Staub vann líka í tvenndarleik ásamt Davíð Elí Halldórssyni úr Tennisfélagi Kópavogs gegn Sigita Vernere og Arnaldi Orra Gunnarssyni, sem koma bæði úr Tennisfélagi Kópavogs. 

Helstu úrslit:

Meistaraflokkur kvenna einliðaleikur:

  1. Sofia Sóley Jónasdóttir, Tennisfélag Kópavogs
  2. Anna Soffia Grönholm, Tennisfélag Kópavogs
  3. Garima Nitinkumar Kalugade, Tennisdeild Víkings

Meistaraflokkur karla einliðaleikur:

  1. Rafn Kumar Bonifacius, Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur
  2. Raj K. Bonifacius, Tennisdeild Víkings
  3. Tino Friscic, ófélagsbundinn

Meistaraflokkur kvenna tvíliðaleikur:

  1. Sofia Sóley Jónasdóttir + Iris Staub, Tennisfélag Kópavogs
  2. Eygló Dís Ármannsdóttir + Eva Diljá Arnþórsdóttir, Tennisdeild Fjölnis
  3. Anna Soffia Grönholm + Hjördís Rósa Guðmundsdóttir, Tennisfélag Kópavogs/Tennisfélag Hafnarfjarðar

Meistaraflokkur karla tvíliðaleikur:

  1. Sigurbjartur Sturla Atlason + Rafn Kumar Bonifacius, Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur
  2. Arnaldur Orri Gunnarsson + Bjarki Sveinsson, Tennisfélag Kópavogs

Meistaraflokkur tvenndarleikur:

  1. Davíð Elí Halldórsson + Iris Staub, Tennisfélag Kópavogs
  2. Arnaldur Orri Gunnarsson + Sigita Vernere, Tennisfélag Kópavogs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert