Ásmundur og Kristín fögnuðu sigri

Kristín Embla Guðjónsdóttir og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson eru glímudrottning og …
Kristín Embla Guðjónsdóttir og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson eru glímudrottning og glímukóngur ársins. Ljósmynd/Glímusamband Íslands

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir, sem bæði keppa fyrir UÍA, eru glímukóngur og glímudrottning Íslands árið 2022 en Íslandsglíman fór fram á Reyðarfirði í gær.

Ásmundur og Kristín eru bæði Reyðfirðingar og unnu því á sínum heimavelli.

Ásmundur hefur nú fagnað sigri í Íslandsglímunni sex sinnum. Sigursælasti glímukóngur Íslands frá upphafi, Ármann J. Lárusson, vann mótið fimmtán sinnum og á Ásmundur því langt í land með að ná honum. Átta karlar tóku þátt á mótinu í ár.

Kristín Embla vann mótið einnig árið 2018 og fagnaði sigri í annað skipti í gær. Sex konur kepptu um Freyjumenið og varð Kristín hlutskörpust.

Var mótið haldið í 111. skipti í gær en Íslandsglíman fór fyrst fram árið 1906 og hefur verið keppt um Grettisbeltið allar götur síðan. Konurnar hafa glímt um Freyjumenið frá árinu 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert