Gamla ljósmyndin: Hefur komið víða við

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Skagfirðingurinn Vanda Sigurgeirsdóttir núverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands hefur komið víða við í íþróttahreyfingunni. Hún var bæði leikmaður og þjálfari í knattspyrnunni og komst í landsliðið í tveimur íþróttagreinum. 

Vanda lék með KA, ÍA og Breiðabliki áður en hún lauk ferlinum með uppeldisfélaginu Tindastóli. Var hún valin besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1990 og lék þá með Breiðabliki.

Vanda lék 37 A-landsleiki og var landsliðsþjálfari kvenna 1997-1999. Var hún fyrst kvenna til að gegna því starfi og Vanda varð jafnframt fyrsta konan sem stýrir karlaliði á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Hún stýrði Neista frá Hofsósi árið 2001. 

Hún þjálfaði kvennalið KR 1999-2003, Tindastól 2005-2007 og Þrótt 2012-2013. Undir hennar stjórn naut KR-liðið mikillar velgengni og varð Íslandsmeistari 1999, 2001 og 2003. KR varð tvöfaldur meistari undir stjórn Vöndu á 100 ára afmæli félagsins árið 1999.

KR er nú aftur komið upp í efstu deild kvenna en Íslandsmótið hófst á dögunum. 

Á meðfylgjandi mynd er Vanda í lausu lofti eftir sigurinn á Íslandsmótinu 2003 en virðist þó ná að brosa til ljósmyndarans Kristins Ingvarssonar sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Þátttaka Vöndu í knattspyrnunni er vel þekkt en ef til vill þekkja færri íþróttaunnendur að hún lék A-landsleiki í körfuknattleik á árunum 1989-1991. Varð hún Íslands-og bikarmeistari með ÍS árið 1991 í þeirri íþróttagrein. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert