Stjórn ÍBR, Íþróttabandalags Reykjavíkur, fagnar viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar Íslands sem snýr að uppbyggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhúsíþróttir.
Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem ÍBR sendi frá sér í dag en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu sameiginlega viljayfirlýsingu sem snýr að uppbyggingu þjóðarhallar í síðustu viku.
„Mikilvægt er að í þeirri vinnu sem framundan er við að greina þarfir íþróttafélaga og sérsambanda fyrir notkun á mannvirkinu, verði gætt sérstaklega að því að æfingatímar félaganna í dalnum falli ekki ítrekað niður eins og verið hefur í Laugardalshöllinni undanfarin ár,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Fréttatilkynning ÍBR:
Stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur fagnar viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar íslands um byggingu íþróttahúss fyrir innanhússíþróttir. Yfirlýsingin felur í sér að ríkið mun tryggja fjármagn til þess að standa undir kostnaði við æfingar og keppni landsliða Íslands í innanhúsíþróttum og með því tryggja fjármagn til mannvirkisins til að standa undir hluta rekstrarkostnaðar. Einnig verður tryggt að Þróttur og Ármann fái langþráða aðstöðu fyrir sífellt fjölgandi iðkendur í þeim fjölmörgu greinum sem félögin bjóða uppá.
Mikilvægt er að í þeirri vinnu sem framundan er við að greina þarfir íþróttafélaga og sérsambanda fyrir notkun á mannvirkinu, verði gætt sérstaklega að því að æfingatímar félaganna í dalnum falli ekki ítrekað niður eins og verið hefur í Laugardalshöllinni undanfarin ár.
Einnig hvetur stjórn ÍBR framkvæmdanefndina sem nú fer í vinnu við að greina þarfirnar, að skoða vel þarfir íþróttagreina sem mögulega geta komið inn í húsið með sína starfsemi án þess endilega að taka tíma á aðalgólfinu heldur geta nýtt hliðarsali eða rými sem allajafna eru lítið notuð. Með þessu telur stjórnin að mikil samlegðaráhrif náist við nýtingu hússins sem mun hjálpa til við að standa undir rekstrarkostnaði.
Reykjavík 11. maí 2022