FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafi í sleggjukasti, fagnaði sigri á Hallesche Werfertage-mótinu í Halle í Þýskalandi um helgina.
Hilmar kastaði sleggjunni lengst 75,52 metra í sínu fimmta kasti, sem er hans besta kast á árinu. Íslandsmet Hilmars er 77,10 metrar en hann setti metið í ágúst árið 2020.
Hilmar nálgast lágmörk fyrir stórmót sumarsins en lágmarkið á EM er 77 metrar og 77,50 metrar á HM.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR náði einnig sínum besta árangri á árinu er hún kastaði 64,30 metra og varð þriðja í U-23 ára flokki á mótinu. Hún var níu sentímetrum frá eigin Íslandsmeti.
Mímir Sigurðsson úr FH varð sjötti í B-hópi í kringlukasti er hann kastaði 57,26 metra.