Kristín fremst sjö Íslendinga í Sun City

Kristín Þórhallsdóttir á Evrópumótinu á síðasta ári.
Kristín Þórhallsdóttir á Evrópumótinu á síðasta ári. Ljósmynd/EPF

Sjö Íslendingar taka þátt í heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem hefst í Sun City í Suður-Afríku á mánudaginn og stendur til næsta laugardags.

Þar er fremst í flokki Kristín Þórhallsdóttir, Evrópumeistarinn í -84 kg flokki kvenna, en hún er næstefst á heimslistanum í sínum flokki og á Evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu. Í tilkynningu frá Kraftlyftingasambandi Íslands segir að Kristín ætli sér að vera í baráttu um verðlaunasætin á mótinu en hún fékk brons á síðasta heimsmeistaramóti.

Arna Ösp Gunnarsdóttir keppir í -63 kg flokki kvenna en hún varð í tíunda sæti á síðasta heimsmeistaramóti.

Lucie Stefanikova keppir í fyrsta sinn fyrir Íslands hönd og er skráð með tíunda besta árangur í -76 kg flokki kvenna.

Birgit Rós Becker keppir á sínu fjórða heimsmeistaramóti og er í -76 kg flokki kvenna.

Friðbjörn Bragi Hlynsson keppir í -83 kg flokki karla en þetta er hans annað heimsmeistaramót eftir að hann endaði í sextánda sæti í fyrra.

Alexander Örn Kárason keppir í -93 kg flokki karla og er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Viktor Samúelsson er reyndasti keppandi Íslands en hann varð sjötti bæði á HM og EM í fyrra. Hann er skráður til leiks sem tíundi bestur í -105 kg flokki karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert