Kláraði erfiðasta fjallamaraþon Íslands 72 ára

Höskuldur eftir hann hljóp Laugaveginn árið 2020. Ásamt Höskuldi hlupu …
Höskuldur eftir hann hljóp Laugaveginn árið 2020. Ásamt Höskuldi hlupu dóttir hans, Anna Kristín, og sonur annarar dóttur hans, Tyler Elías Jones. Ljósmynd/Höskuldur Kristvinsson

Höskuldur Kristvinsson kláraði erfiðasta fjallamaraþon Íslands á laugardaginn þegar Mt. Esja Ultra hlaupið fór fram í 11. skipti.

Höskuldur, sem er 72 ára gamall, kláraði maraþonvegalengd með 3.600 metra hækkun í brekkum Esjunnar á 11 klukkustundum og 53 mínútum, að því er segir í tilkynningu.

Fimm mismunandi leiðir upp Esjuna eru farnar í Mt. Esju Ultra-maraþoninu, þar á meðal upp að Steini.

Sigurvegari í karlaflokki var Þorsteinn Roy Jóhansson á fimm klukkustundum og 40 mínútum og í kvennaflokki bar Elísabet Margeirsdóttir sigur úr býtum en hún hljóp á sex klukkustundum og 30 mínútum.

Brautarmet í báðum flokkum voru slegin í einni ferð upp að Steini. Andrea Kolbeinsdóttir hljóp á 24 mínútum og 20 sekúndum og sigraði kvennaflokkinn. Í karlaflokki vann Ingvar Hjartason hlaupið annað árið í röð á 23 mínútum og 57 sekúndum.

Í tveimur ferðum upp að Steini voru sigurvegararnir Thelma Björk Einarsdóttir á einni klukkustund og 39 mínútum en í karlaflokki vann Jörundur Frímann Jónasson sem kláraði hlaupið á einni klukkustund og 24 mínútum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert