„Okkur fannst við vera með þær fyrir framan okkur og skoruðum snemma og vörðumst með öllu. Ég verð að hrósa stelpunum fyrir það. En svo opnast leikurinn í seinni hálfleik og það verður að hrósa Söndru – algjörlega frábærar vörslur og ótrúlegt að hún sé ekki maður leiksins verð ég að segja.“
Þetta segir Gunnhildur Jónsdóttir landsliðskona að leik Íslands og Ítalíu loknum í kvöld. Leikurinn fór 1:1 þar sem Ítölum tókst að jafna á sextugustu og annarri mínútu.
„Hún bara stóð sig frábærlega og það er bara svekkjandi að klára þetta ekki fyrir hana,“ bætir Gunnhildur við.
Gunnhildur segir að liðið hefði getað verið þéttara á velli og unnið fleiri seinni bolta. „Við vorum að vinna mikið af fyrstu, en þær voru að vinna mikið af seinni og það gerði það gerði okkur erfitt fyrir að halda í boltann,“ segir hún.
„En mér fannst við loka vel á þær í fyrri hálfleik, þær áttu ekki mikið af færum þá. Þær gerðu breytingar í hálfleik og það kannski breytti þeirra leik. En mér fannst við standa okkur frábærlega varnarlega.“
„Eitt stig er svekkjadi, og það segir hvað við áttum sterkan leik út af því að Ítalir eru með helvíti sterkt lið.“
Nokkur harka var í leiknum og margar aukaspyrnur dæmdar. Gunnhildur var síðan með glóðurauga þegar hún kom úr búningsklefanum eftir leik.
„Það var hátt spennustig, það sást á báðum liðum. Það var mikilvægt stundum að stöðva sóknirnar þeirra. Þær eru fljótar að fá boltann og koma honum í gang þannig að sum brot voru nauðsynleg. Aftur á móti voru mörg brotin mjög mjúk,“ segir Gunnhildur.