Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, ætlar ekki að verja titil sinn á næsta ári. Þetta kom fram í hlaðvarpsþætti, sem birtist í morgun.
Í þættinum sagðist Carlsen hafa nýlega átt fund í Madrid með Arkadí Dvorkovítsj, forseta alþjóðaskáksambandsins, Fide, og Emil Sutovsky, framkvæmdastjóra sambandsins og tilkynnt þeim að hann myndi ekki að taka þátt í næsta heimsmeistaraeinvígi.
Carlsen, sem er 31 árs, sagðist þó ekki vera að setjast í helgan stein. Hann hefur fimm sinnum unnið heimsmeistaratitilinn í skák, fyrst árið 2013 og síðast í lok síðasta árs. Þá hefur einnig oft unnið heimsmeistaratitla í atskák og hraðskák.
Þetta þýðir, að Rússinn Ian Nepomniachtschi og Kínverjinn Ding Liren munu heyja einvígi um heimsmeistaratitilinn árið 2023. Carlsen vann Nepomniachtchi í einvígi um titilinn á síðasta ári.