„Var á mjög vondum stað í lífinu“

Íslenski hópurinn sem leggur stund á lokaundirbúning í The Pit. …
Íslenski hópurinn sem leggur stund á lokaundirbúning í The Pit. Má þarna sjá Anníe Mist Þórisdóttur, heimsþekkta crossfit-konu, og hennar fólk, þar af þjálfarann Jami, Björgvin Karl Guðmundsson crossfit-kempu, Rökkva, Bergrós og Eggert, þeirra þjálfara. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Framtíð íslenskrar æsku í crossfit er komin til Bandaríkjanna í harðar æfingabúðir fram að Heimsleikunum í greininni sem hefjast í hinni fornfrægu Madison í Wisconsin 3. ágúst. Þetta eru þau Bergrós Björnsdóttir og Rökkvi Hrafn Guðnason sem keppa í 14 – 15 ára og 16 – 17 ára flokki en þeim til halds og trausts er þjálfari þeirra Eggert Ólafsson, auk reyndar Berglindar Hafsteinsdóttur, móður Bergrósar, og fjölskyldu Rökkva. Ræddu keppendur og þjálfari drauma sína og vonir við mbl.is.

„Við byrjum sem sagt í æfingabúðum fyrir sjálfa leikana, við Rökkvi erum bara tvö frá Íslandi sem keppum í unglingaflokki,“ segir Bergrós og kveður undirbúning þeirra Rökkva hafa gengið mjög vel. „Núna er bara lokaundirbúningur í sólinni og hitanum hérna í Bandaríkjunum,“ heldur hún áfram en Bergrós hefur einnig getið sér gott orð í ólympískum lyftingum og rætt við mbl.is á þeim vettvangi.

Venjast æfingum í hita

Íslenski hópurinn flaug til Chicago og gisti þar fyrstu tvo dagana. Eftir það var haldið til bæjarins Three Rivers í Michigan þar sem Bergrós og Rökkvi hafa verið í stífum æfingabúðum hjá þjálfara sínum í crossfit-stöðinni The Pit. Þar í bænum verða þau fram á mánudag, 1. ágúst, og gista á veglegum sveitabæ í guðsgrænni náttúru Michigan-ríkis. Að lokinni þeirri dvöl liggur leiðin til Madison á leikana.

Bergrós, Eggert og Rökkvi fyrir brottförina frá Íslandi. Þau leggja …
Bergrós, Eggert og Rökkvi fyrir brottförina frá Íslandi. Þau leggja nú nótt við dag í æfingum fyrir stærsta crossfit-viðburð heims. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Bergrós segir hitastigið vera eitthvað sem þau þurfi að venjast eins og hægt er áður en leikarnir hefjast. „Hitinn er nú ekki mjög mikill á Íslandi svo það er mjög gott fyrir okkur að taka síðustu æfingavikurnar úti til að venjast því að æfa í hitnum áður en við keppum,“ segir hún af undirbúningi og reiknar með tveimur æfingum á dag fram að leikunum, eins og verið hefur fram til þessa.

Bergrós gerir sér töluverðar vonir um frammistöðuna á þessum stærsta crossfit-viðburði heims. „Ég hef lagt gríðarlega mikið á mig og geri mér miklar væntingar fyrir þessa keppni. Ég mun gera mitt allra besta og ég hlakka til að sjá hverju það skilar,“ segir hún og bætir því við að hún hafi aðeins æft crossfit í þrjú ár sem sé lítið miðað við aðrar stúlkur í hennar flokki.

Rökkvi og Bergrós fyrir utan æfingastöðina The Pit sem hlýtur …
Rökkvi og Bergrós fyrir utan æfingastöðina The Pit sem hlýtur að teljast viðeigandi nafn fyrir stífar æfingar í sumarhitum Michigan-ríkis. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Líklegt telur hún að keppendum verði greint frá keppnisgreinum leikanna, svokölluðum „WOD“-um (e. „workout of the day“) fyrir fram, en þó ekki með svo löngum fyrirvara að þeir nái að æfa þær greinar svo nokkru nemi. Aðeins tíu keppendur komast í hvern aldursflokk og eru aldursflokkar unglinga fjórir og keppendur því alls 40 að fullorðinsflokkum ótöldum.

Tilbúinn að sætta sig við búinn feril

„Ég er að búa mig undir mína síðustu heimsleika í unglingaflokki í crossfit,“ segir Rökkvi Hrafn Guðnason sem er á leið á sína þriðju heimsleika sem reyndar munaði aðeins hársbreidd að yrðu hans fjórðu. „Árið 2019 komust tíu inn á leikana og ég lenti þá í 10. sæti ásamt öðrum og hann fékk að fara í stað mín,“ segir Rökkvi sem hafnaði í 3. sæti í undankeppni leikanna árið 2020 en heimsfaraldurinn hafi svo orðið til þess að ekkert varð úr leikunum.

Rökkvi á Heimsleikunum í fyrra, hann keppir nú á sínum …
Rökkvi á Heimsleikunum í fyrra, hann keppir nú á sínum þriðju, reyndar næstum því fjórðu, Heimsleikum. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef nýtt allt þetta til að gera mig enn þá sterkari og tilbúnari fyrir þetta ár, mikilvægasta árið hingað til,“ heldur hann áfram. „Þetta ár er samt ekki búið að vera auðvelt, strax eftir síðustu leika meiddist ég og þurfti að hætta að æfa í rúma tvo mánuði. Ég var á mjög vondum stað í lífinu andlega og líkamlega séð, með áráttu- og þráhyggjuröskun og var tilbúinn að sætta mig við að ferillinn væri búinn, ég keppti samt í fyrstu undankeppninni, í febrúar, og lenti í rúmlega 60. sæti, nánast óæfður.

Hér gæti verið komin myndskreyting úr Grimms-ævintýrum, til dæmis Hans …
Hér gæti verið komin myndskreyting úr Grimms-ævintýrum, til dæmis Hans og Grétu, slíkur er ævintýrablærinn yfir sveitabænum sem er dvalarstaður Íslendinganna í Michigan. Þarna er þó engin norn heldur föngulegt íslenskt crossfit-fólk á ferð. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Eftir það byrjaði ég svo að finna mig aftur, líkaminn varð betri, ég vann í andlegu heilsunni minni og hægt og rólega varð ég betri og betri. Í næstu undankeppni, sem var í apríl, lenti ég í 14. sæti og í þeirri seinustu í maí lenti ég í 3. sæti,“ segir Rökkvi sem er fullur bjartsýni fyrir undirbúningstímabilið er nú stendur og fer ekki í grafgötur með háleit markmið sín.

Fáránlega mikil vinna

„Ég er búinn að setja mér það markmið að verða heimsmeistari í þessari íþrótt síðan ég var átta ára 2014 og núna er komið að því. Ég er kominn hingað til að vinna, með allri minni uppsöfnuðu reynslu. Ég get ekki sagt að ég sé búinn að huga mikið að því hvernig lífið mun verða eftir leikana vegna þess að ég kýs algjörlega að lifa í núinu, akkúrat núna. En þá mun bara annað markmið taka við, enn þá stærra, enn þá betra, í leit að hamingju og velgengni í lífinu,“ segir þessi ungi íþróttamaður sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna.

Mæður afreksfólks. Þær Margrét Benediktsdóttir og Berglind Hafsteinsdóttir fylgja börnum …
Mæður afreksfólks. Þær Margrét Benediktsdóttir og Berglind Hafsteinsdóttir fylgja börnum sínum hvert fótmál á keppnisferðalaginu. „Við erum líka með bát,“ segir Berglind og ljóst að þær mömmurnar geta leyft sér að slaka meira á en ungviðið. Ljósmynd/Bergrós Björnsdóttir

„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel,“ segir Eggert Ólafsson þjálfari, lokaviðmælandi í þessu spjalli. „Markmið krakkanna er að vinna, það er engin ástæða til að vera að þessu ef það er ekki markmiðið,“ segir þjálfarinn ákveðinn

„Það er fáránlega mikil vinna bak við þetta hjá þeim, ekki bara á æfingum heldur líka heima. Mataræðið er upp á 10 hjá þeim báðum. Þau eyða miklum tíma í að teygja og nudda ásamt því að passa að fá nægan svefn. Líf þeirra snýst alveg í kringum þetta. Það er það sem þarf að gera ef þú ætlar að ná markmiðunum sem þau eru með,“ segir Eggert Ólafsson að lokum og mun mbl.is fylgjast með gengi Bergrósar og Rökkva auk annarra íslenskra keppenda á leikunum í ágúst.

Ferðalög ekki ókeypis

Keppnisferðalög og -undirbúningur fyrir stórmót er nokkuð sem seint verður ókeypis og lendir allur kostnaður við ævintýrið í Wisconsin á keppendunum sjálfum, eða réttara sagt foreldrum þeirra sem leita eftir stuðningi velviljaðs fólks og fyrirtækja og blésu til fjáröflunar í því skyni, eða eins og Guðni Finnsson, faðir Rökkva, skrifaði á Facebook-síðu sína:

„Það kostar hins vegar hellings pening að keppa á heimsleikunum og þess vegna ætlum við í dag að byrja á fjáröflun fyrir þau. Fyrsti liðurinn í því framtaki er einfaldlega að óska eftir stuðningi frá ykkur, en eins og allir vita þá gerir margt smátt eitt stórt.“

Bergrós við æfingar í The Pit er líður að upphafsdegi …
Bergrós við æfingar í The Pit er líður að upphafsdegi Heimsleikanna, 3. ágúst. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Fjáröflunarreikningur Bergrósar og Rökkva er nr. 526-26-180105, kennitala 180105-2630, fyrir þá sem leggja vilja ofurhugunum ungu lið fjárhagslega en að sögn Guðna ganga öll framlög óskipt upp í kostnað við flug, gistingu, akstur, mat og annað uppihald.

Lífið er ekki sviti út í gegn þrátt fyrir að …
Lífið er ekki sviti út í gegn þrátt fyrir að mikið sé af honum þessa dagana og hér er stund milli stríða hjá keppnisfólkinu íslenska. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert