Klippti af sér allt hárið fyrir vigtun

Úlfhildur í snöruninni á EM þar sem hún lyfti 80 …
Úlfhildur í snöruninni á EM þar sem hún lyfti 80 kg en náði bara fyrstu lyftunni. Það nægði henni þó til að tryggja sér silfrið. Ljósmynd/Aðsend

Lyftingakempan Úlfhildur Unnarsdóttir sneri heim af Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Varsjá í Póllandi í síðustu viku með þrjár silfurmedalíur í farteskinu, fyrir snörun, jafnhendingu og samanlagt, en þær voru tólf sem kepptu í hennar flokki, -71 kg.

Gullið fór til Finnlands að þessu sinni þar sem Janette Ylisoini bar sigur úr býtum í flokknum. Aðeins munaði þó hársbreidd að Úlfhildur prýddi gullpallinn og þótt hársbreidd sé með algengari orðum í íþróttafréttum er það notað hér í bókstaflegri merkingu en oft áður og segir Úlfhildur söguna af því.

„Eins og venjulega byrjaði dagurinn á vigtun. Hún gekk fínt hjá mér, ég var eitthvað um 70 kíló slétt svo ég fór bara og fékk mér að borða,“ segir Úlfhildur. „Svo heyri ég að þjálfararnir eru eitthvað að ræða málin og það er eitthvert stress í gangi. Ég fer að athuga málið og tala við finnska þjálfarann og hann segir mér þá að Janette sé yfir í þyngd, hún nái ekki í -71,“ segir Úlfhildur.

Þrjár mínútur til stefnu

Eðlilega var geðshræringin mikil greinir hún frá, klukkan hafi þarna verið 09:57 og vigtun lokið á slaginu 10:00. „Hún hafði þá verið í sturtu og að reyna að svitna út öllu því sem hún gat í næstum klukkutíma. Á síðustu mínútunni klippir hún af sér allt hárið og nær svo akkúrat 71,0 sem telst innan -71-flokksins,“ segir Úlfhildur frá og blaðamaður hváir, hafandi heyrt ýmsar sögur af örþrifaráðum vigtarinnar, margra klukkutíma lotur á þrekhjóli í gufubaði auk annars sem ekki verður nefnt í fjölmiðlum.

Úlfhildur ásamt Finnanum sem þarna var búinn að fórna haddi …
Úlfhildur ásamt Finnanum sem þarna var búinn að fórna haddi sínum til að ná vigtun í -71 kg flokk. Ljósmynd/Aðsend

Finninn bjó að því að skarta hári niður á mitt bak að sögn Úlfhildar og nægði þessi fórn því til að vigtast í réttan flokk og féllu þrenn gullverðlaun því nýklipptum Finna í skaut. Hefði Úlfhildur ellegar verið í þeim sporum. Hársbreidd eins og sagt er.

En mótið að öðru leyti?

„Þetta var ágætt mót, ég náði 80 kílóum í snörun og 101 í jafnhendingu. Ég náði bara fyrstu lyftunni minni í snörun, missti hinar tvær, en það var allt í lagi úr því ég náði silfrinu,“ segir Úlfhildur frá, en hér má geta þess að hún er fyrst Íslendinga til að komast á verðlaunapall á Evrópumeistaramóti í ólympískum lyftingum.

Næsta EM í nóvember

Í jafnhendingu náði hún fyrstu lyftu, missti lyftu númer tvö og ákvað þá að hækka um eitt kílógramm í þriðju og síðustu þar sem þá var ljóst að það nægði henni í annað sætið og það gekk eftir.

Úlfhildur hlaðin silfri ásamt Ernu Héðinsdóttur dómara.
Úlfhildur hlaðin silfri ásamt Ernu Héðinsdóttur dómara. Ljósmynd/Aðsend

Keppendur á þessu Evrópumeistaramóti voru um 200, 20 þyngdarflokkar, tíu hjá hvoru kyni, og um það bil tíu í hverjum flokki. „Ég er mjög sátt, kem inn í mótið og var að stefna á kannski eitt brons eða svo en þá gekk hinum stelpunum í flokknum ekkert eins vel og ég hafði búist við,“ segir Úlfhildur og má enda vel við árangur sinn una en hún er Norðurlandameistari í sínum þyngdarflokki síðan á NM í Stavern í Noregi í fyrra.

Fram undan hjá Úlfhildi er næsta Evrópumeistaramót, að þessu sinni í junior, sem er eldri flokkurinn, í Póllandi keppti hún á EM unglinga undir 17 ára og var þetta síðasta árið hennar í þeim flokki. Junior-mótið fer fram í Albaníu í nóvember og mun mbl.is fylgjast með gangi mála þar.

Úlfhildur er fyrst Íslendinga til að komast á verðlaunapall á …
Úlfhildur er fyrst Íslendinga til að komast á verðlaunapall á Evrópumeistaramóti í ólympískum lyftingum fyrr og síðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert