Jakob Lars Kristmannsson gerði sér lítið fyrir og hafnaði í öðru sæti í flokki 20 ára karla og yngri með höggsverði á opna Norðurlandameistaramótinu í skylmingum í Kaupmannahöfn í Danmörku gær.
Anna Edda Gunnarsdóttir Smith tók þátt í flokki kvenna 20 ára og yngri með höggsverði og lenti í þriðja sæti.
Í dag kepptu Alfred Ási Davíðsson, Ari Vilberg Jónasson, Fróði Richard Sigurðsson, Logi Baldur Bjartmarsson, Magnús Matthíasson og Ýmir Darri Hreinsson í flokki 15 ára og yngri með höggsverði og Karitas Jónsdóttir í kvennaflokki.
Ýmir Darri náði glæsilegum árangri og er Norðurlandameistari í sínum flokki þar sem hann vann liðsfélaga sinn Magnús í úrslitabardaga, 15-3. Í þriðja sæti endaði Logi Bjartmarsson. Karitas Jónsdóttir skylmdist mjög vel og endaði í þriðja sæti.
Ísland var Norðurlandameistarar í liðakeppni undir 20 ára með höggsverð, fyrir hönd Íslands kepptu Alexander Viðar, Jakob Lars Kristmannsson, Jóel Ben Tompkins og Ýmir Darri Hreinsson. Ísland vann Svíþjóð í úrslitaleik með glæsibrag, 45-39.
Keppendur eru yfir 900 frá 11 þjóðum og er þetta eitt fjölmennasta opna Norðurlandameistaramót frá upphafi, 16 íslenskir keppendur taka þátt í hinum ýmsu flokkum en á morgun verður keppt í flokki 17 ára og yngri bæði karla og kvenna ásamt fullorðinsflokkum.