Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í dag í heimsbikarnum í þríþraut sem fram fór í Bergen í Noregi. Þar hafnaði hún í 34. sæti.
Keppt var í sprettþraut en brautin var 750 metra langt sund í höfninni í Bergen, hjólið var fjórir 5 kílómetra hringir í kringum höfnina á tæknilegri braut og svo voru tveir 2,5 kílómetra hringir hlaupnir.
65 þríþrautarkonur voru á ráslínunni og Guðlaugu var raðað númer 42, eftir styrkleika, fyrir keppnina.
Keppnin var mjög hörð frá upphafi til enda og Guðlaug var lengst af í hópi númer tvö á hjólinu að elta fremsta hóp sem var nokkuð stór. Hún hljóp á tímanum 17:59 mínútum og endaði þrautina á tímanum 65 mínútum og 28 sekúndum sem skilaði henni 34. sætinu.
Hún var þannig tæpum þremur mínútum á eftir Tildu Månsson frá Svíþjóð sem vann sína fyrstu heimsbikarkeppni en hún er einungis 18 ára gömul og er efst á ungmennastyrkleikalista Evrópu.
Næsta keppni Guðlaugar er í Valencia næsta laugardag en þá verður keppt í sprettþraut í heimsbikarnum.