Skýr afstaða með transfólki í íþróttum

ÍBR vill að allir jaðarhópar upplifi sig velkomna í íþróttum
ÍBR vill að allir jaðarhópar upplifi sig velkomna í íþróttum mbl.is/Hari

Íþróttabandalag Reykjavíkur sendi í dag frá sér tilkynningu um afstöðu bandalagsins um transfólk í íþróttum. Í yfirlýsingunni er greint frá skýrri afstöðu með transfólki í íþróttum. 

Jafnframt er tekið fram að bandalagið vilji að allir jaðarhópar upplifi sig velkomna í íþróttum og að íþróttafélög innan ÍBR munu fá hinseginfræðslu frá Samtökunum '78. 

Yfirlýsing ÍBR í heild sinni: 

Íþróttabandalag Reykjavíkur tekur skýra afstöðu með transfólki í íþróttum, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna, afreks- eða áhugafólk.

Transeinstaklingar eiga að fá að iðka og keppa í sinni íþróttagrein á jafnréttisgrundvelli og það er undir íþróttahreyfingunni komið að vera inngildandi og finna leiðir fyrir öll að taka þátt og keppa.

Transíþróttafólk er hluti af íþróttasamfélaginu. Öll eiga rétt á því að njóta íþrótta án tillits til kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna.

ÍBR vill að allir jaðarhópar upplifi sig velkomna í íþróttum. Íþróttir stuðla að betri líkamlegri og andlegri heilsu, eru frábær forvörn og hjálpa fólki að ná félagslegum tengslum. Því er mikilvægt að öll upplifi sig velkomin í íþróttum.

ÍBR vinnur markvisst að því að gera íþróttastarfsemina í Reykjavík hinseginvænni. Öll íþróttafélög innan raða ÍBR munu fá hinseginfræðslu frá Samtökunum '78 á haustmánuðum, fyrir starfsfólk og þjálfara. Íþróttabandalag Reykjavíkur er með Regnbogavottun Reykjavíkurborgar og hefur allt starfsfólk ÍBR fengið hinseginfræðslu.

ÍBR lýsir sig reiðubúið að vinna að því með sérsamböndum, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands að útbúa leiðbeiningar fyrir íþróttahreyfinguna um trans fólk í íþróttum sem verndar rétt allra til að stunda íþróttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert