211 keppendur lögðu af stað í Bakgarð Náttúruhlaupa í Heiðmörk í morgun og standa nú eftir 50 keppendur.
Í bakgarðshlaupinu hlaupa þátttakendur 6,7 kílómetra hring á hverjum klukkutíma og er hver hringur ræstur á heila tímanum. Sá sem hleypur flesta hringi stendur uppi sem sigurvegari en hann er sá eini sem klárar hlaupið.
Klukkan 22.00 fóru keppendurnir 50 sem eftir standa af stað í 14. hringinn.
Segir í facebook-færslu Bakgarðsins að hlaupið sé farið að taka talsverðan toll, enda búið að vera í gangi í 13 klukkustundir. Þá séu bæði bros og strengir við völd í Heiðmörkinni.
Hlauparinn Mari Järsk sigraði hlaupið í vor þegar hún gerði sér lítið fyrir og hljóp 288 kílómetra.
Hér fyrir neðan má sjá nýjustu færslu Bakgarðs en síðan er uppfærð reglulega með upplýsingum um hversu margir eru eftir í keppninni.