Ætlar að fagna með svefni

Kristján segist aldrei hafa tekið í svo löngu hlaupi áður.
Kristján segist aldrei hafa tekið í svo löngu hlaupi áður. mbl.is/Óttar

Kristján Svanur Eymundsson, hlauparinn sem vann Bakgarðshlaup Náttúruhlaupa í Heiðmörk í dag, er hæstánægður og kveðst hafa getað hlaupið meira. Lét hann þó 214,4 kílómetra duga í þetta skiptið.

Hlaupið hófst kl. 9 í gærmorgun og lauk þegar Kristján kom í mark á fimmta tímanum í dag. Stóð það því yfir í tæpar 30 klukkustundir.

„Ég er furðugóður, kominn í hlýjan fatnað þannig að maður er bara nokkuð vel stemmdur,“ sagði Kristján þegar mbl.is sló á þráðinn. Þá var kappinn nýkominn í mark.

„Er orðinn þurr og kominn í úlpu. Aðeins að hita mig upp.“

Rafhlöðulaust höfuðljós

Spurður hvort þetta hafi ekki reynst erfitt verk, að hlaupa í svo langan tíma, jánkar Kristján því.

„Jú, vissulega. Það voru alveg dalir þarna inni á milli,“ sagði hann og nefndi eftirminnilegt atvik næturinnar þegar hann komst að því að rafhlöðurnar væru nánast að þrotum komnar í höfuðljósinu.

„Smá slysahætta þar en það hafðist. Annars komst ég í gegnum þetta allt og alla erfiðleika með hjálp virkilega góðra vina og aðstoðarfólks,“ segir hann og nefnir þar aðstoðarmann sinn og vin, Gunnar Smára Sigurgeirsson, sérstaklega.

„Hann var með mér alla nóttina og í gærkvöldi og inn í daginn í dag,“ sagði hann en Gunnar Smári sá um að fæða hann og klæða í skálanum milli hringja. „Hann er minn besti vinur og stóð sig algjörlega eins og hetja hérna við að aðstoða mig.“

Hefði getað hlaupið meira

Í bak­g­arðshlaup­inu hlaupa þátt­tak­end­ur 6,7 kíló­metra hring á hverj­um klukku­tíma og er hver hring­ur ræst­ur á heila tím­an­um. Hafa keppendur því eina klukkustund til þess að hlaupa hvern hring og hvíla sig.

Kristján segist halda að hann hefði getað hlaupið meira. „Ég er nokkuð viss um það. Ég hljóp hringina á 36 til 38 mínútum að jafnaði. Ég held að ég hefði getað hægt aðeins á og stytt hvíldina. Þá hefði verið aðeins minna álag.“ 

Kristján hljóp 32 hringi, alls 214,4 kílómetra. Spurður hversu marga hann teldi að hann hefði getað hlaupið í það allra mesta segir hann erfitt að segja.

„Annars komst ég í gegn um þetta allt og alla …
„Annars komst ég í gegn um þetta allt og alla erfiðleika með hjálp virkilega góðra vina og aðstoðarfólks,“ segir hann mbl.is/Óttar

„Ég sagði við Svein Atla vin minn persónulega að ég ætlaði að slá Íslandsmetið, en maður veit náttúrlega aldrei og það er erfitt að skjóta út í loftið. Hausinn var allavega ferskur,“ segir hann en Íslandsmetið er 43 hringir, slegið í apríl á þessu ári.

Keppendur voru heppnir með veður framan af keppni en undir lokin tók að rigna. „Það var í raun ekki rigning fyrr en síðustu tvo hringina. Gærdagurinn var alveg gjörsamlega sturlaður, sól lengi vel og blankalogn.

Nóttin var nokkuð góð. Það fór aðeins að blása upp úr tvö en samt var hlýtt því það var skýjað. Dagurinn í dag var erfiðari en alltaf stuttbuxnaveður þannig það var ekki að trufla mann.“

Fjórfaldaði sitt lengsta hlaup

Kristján segist aldrei hafa tekið þátt í svo löngu hlaupi áður. „Það lengsta sem ég hafði farið fyrir þetta voru um það bil 55 kílómetrar,“ segir hann en hann hefur meðal annars hlaupið í Laugavegshlaupinu, Hengli, Austur Ultra auk götumaraþona.

Og hvernig ætlarðu að fagna?

„Það var rosalega vel mætt af fólki hérna sem hægt er að fagna með,“ segir hann og á við aðra keppendur hlaupsins.

En annars ætla ég bara að fagna með svefni.“

Kristján þegar hann kom í mark.
Kristján þegar hann kom í mark. Skjáskot/Náttúruhlaupin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert