Fyrsta lyftan erlendis heimsmet

Elsa Pálsdóttir í réttstöðulyftunni á HM öldunga í St. John's …
Elsa Pálsdóttir í réttstöðulyftunni á HM öldunga í St. John's í Kanada þar sem hún varði heimsmeistaratitil sinn af öryggi. Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IPF

„Stemmningin á mótinu er mjög góð. Hérna eru margir keppendur sem ég hef kynnst og keppt við á fyrri mótum,“ segir Elsa Pálsdóttir sem á laugardaginn varði heimsmeistaratitil sinn í kraftlyftingum öldunga á heimsmeistaramótinu í St. John's í Kanada þar sem hún keppti í -76 kílógramma flokki 60 til 69 ára.

„Þetta var mitt annað heimsmeistaramót og ég hafði titil að verja,“ segir Elsa frá. Hún byrjaði á að lyfta 120 kg í hnébeygju en fór ekki nógu djúpt í beygjuna og hlaut því ekki náð fyrir augum dómnefndar. „Hún var frekar létt svo ég tók 132,5 kg næst og hún var góð og gild. Í síðustu lyftunni reyndi ég svo við 138 kg sem er heimsmet. Hún fór upp en var því miður ekki gild svo lokaþyngdin mín var 132,5 kg,“ segir Elsa.

Elsa setti Íslandsmet í sínum flokki í bekkpressu þegar hún …
Elsa setti Íslandsmet í sínum flokki í bekkpressu þegar hún lyfti 65 kg á laugardaginn. Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IPF

Í bekkpressu fékk hún allar lyftur gildar, byrjaði á 57,5 kg, tók þá 62,5 og að lokum 65 kg sem er Íslandsmet í hennar flokki. „Í réttstöðulyftu opnaði ég með 145 kg sem var létt öryggislyfta til að tryggja samanlagðan árangur. Vegna tæknilegra mistaka rann ég út á tíma með að láta vita af næstu þyngd og var því dæmd til að taka 147 kg sem fóru létt upp.“

Í síðustu lyftunni fóru svo 160 kg upp hjá Elsu og tryggði hún sér þar með gull í réttstöðu. „Ætlunin var að taka þá þyngd í annarri lyftunni og reyna við 165 í síðustu sem hefði verið heimsmet í mínum flokki en það bíður bara betri tíma,“ segir Elsa með stóískri ró.

Gull í hnébeygju fyrir 132,5 kg lyftu en Elsa tók …
Gull í hnébeygju fyrir 132,5 kg lyftu en Elsa tók einnig gullið í réttstöðulyftu og samanlögðu. Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IPF

Árangur hennar á þessu heimsmeistaramóti er enda ekkert slor, gull í hnébeygju með 132,5 kg, silfur í bekk með 65, gull í réttstöðu með 160 og gull í samanlögðu með 357,5 kg sem nægði Elsu til heimsmeistaratitils í sínum flokki.

Hún kveður undirbúning fyrir mótið hafa gengið mjög vel. „Strax eftir Evrópumeistaramótið í mars fór ég að fókusera á HM. Ég hef verið dugleg að æfa og skrokkurinn verið heill og í góðu lagi,“ segir Elsa frá.

Á gullpallinum eftir dúndurframmistöðu í Kanada.
Á gullpallinum eftir dúndurframmistöðu í Kanada. Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IPF

Eins og greint var frá í upphafi var stemmningin góð á mótinu og keppnismennskan í fyrirrúmi. „Einn keppandi frá Ameríku kom til mín á mótinu og sagði „markmiðið mitt er að vinna þig í réttstöðunni“, það var bara gaman að því en sem betur fer náði hún ekki þessu markmiði sínu,“ segir Elsa kankvís.

Ferillinn í stálinu stuttur

Hún keppir við þriðja mann frá Íslandi, hinir keppendurnir eru Hörður Birkisson sem keppti í sama aldursflokki og Elsa og hlaut þar silfurverðlaun í bekkpressu en Benedikt Björnsson í 40 til 49 ára flokki átti eftir að keppa þegar mbl.is ræddi við Elsu.

Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IPF

Þrátt fyrir tvo heimsmeistaratitla er ferill hennar í stálinu stuttur. „Ég fór að snúa mér algjörlega að kraftlyftingum árið 2019, tók fyrst þátt í kraftlyftingamóti á erlendri grundu í júlí 2021 þegar ég keppti á EM í Tékklandi, þá varð ég Evrópumeistari í mínum flokki. Fyrsta lyftan mín á því móti og þar með fyrsta lyftan mín á erlendri grundu var heimsmet í mínum flokki,“ segir Elsa sem í framhaldinu keppti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Þar stóð hún uppi sem heimsmeistari í sínum flokki þannig að hún varð hvort tveggja Evrópu- og heimsmeistari fyrsta keppnisárið á erlendri grundu og hefur í ár varið báða titlana.

„Fram undan er að halda áfram að æfa og styrkja sig með það að markmiði að verja titla og bæta heimsmet. Næsta verkefni er ekki langt undan því í nóvember stefni ég á Íslandsmót öldunga sem haldið verður í Njarðvík. Svo er stefnan að sjálfsögðu sett á Evrópumeistaramót öldunga í Búdapest í mars á næsta ári,“ segir Elsa Pálsdóttir, tvöfaldur heimsmeistari á sjötugsaldri sem á greinilega meira en nóg inni.

Elsa setur stefnuna ótrauð á Evrópumeistaramót öldunga í Búdapest á …
Elsa setur stefnuna ótrauð á Evrópumeistaramót öldunga í Búdapest á næsta ári, en fyrst er Íslandsmót í Njarðvík. Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IPF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert