Hin borgfirska Kristín Þórhallsdóttir hreppti silfurverðlaun í samanlögðu á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi í dag eftir gallharða viðureign við“ Pólverjann Agötu Sitko en þær öttu kappi í -84 kg flokki sem alls var skipaður þrettán keppendum.
Fór Kristín með sigur af hólmi í hnébeygju og hreppti þar gullverðlaun með 217,5 kg en reyndi í tvígang við 227,5 kg sem ekki vildu alla leið í dag. Sitko lyfti 202,5 kg í hnébeygju en átti mjög góðan sprett í bekkpressunni, sinni sterkustu grein, þar sem hún lyfti 145 kg. Lyfti Kristín þar fyrst 112,5 kg, þá 120 og í kjölfarið 125 sem fóru upp en dómendur sáu þar meinbugi á, taldi einn þriggja dómenda að Kristín hefði þjófstartað lyftunni og annar að hún hefði lyft bakhlutanum frá bekknum svo 120 kg urðu að duga sem lokatala í bekkpressu.
Bronsið varð því lendingin í bekkpressunni en silfurverðlaun þar hlaut Finninn Ida Sjölander sem einnig lyfti 120 kg en er léttari en Kristín og telst þar með hafa sigur.
Í réttstöðulyftu hóf Kristín 222,5 kg örugglega á loft í fyrstu lyftu og færði sig því næst upp í 237,5 sem einnig fóru upp og voru bæting á hennar eigin Íslandsmeti um 7,5 kg. Að lokum reyndi hún við 245,5 kg en náði ekki að læsa í efstu stöðu. Lokatala í réttstöðu því 237,5 kg og Sitko þar með 235. Sigurvegari í réttstöðulyftu varð hin breska Ziana Azariah sem lyfti 246 kg og setti þar með nýtt Evrópumet.
Lauk Kristín þar með keppni með 575 kg í samanlögðu og silfur sem fyrr segir, en Agata Sitko hafði 7,5 kg á Borgfirðinginn með 582,5 kg. Í þriðja sæti í samanlögðu var Bretinn Azariah með 553 kg.
Rætt verður við Kristínu hér á mbl.is nú innan skamms.