Landsliðsfólk þarf að greiða vegna útsendinga RÚV

Jóna Margrét Arnarsdóttir, til hægri, í leik með KA.
Jóna Margrét Arnarsdóttir, til hægri, í leik með KA. mbl.is/Óttar Geirsson

Jóna Margrét Arnarsdóttir, landsliðskona í blaki, var gestur hjá Valtý Birni Valtýssyni í hlaðvarpinu Mín skoðun í dag. Jóna sagði að hún og annað landsliðsfólk þyrfti að greiða 70.000 krónur hvert fyrir hvern leik sem íslensku landsliðin spila í undankeppni EM, vegna útsendinga RÚV frá leikjunum.

Blaksamband Íslands þarf að greiða ríkismiðlinum fyrir leiki sem hann sýnir. Blaksamband Evrópu skyldar sambönd til að sýna leiki í keppninni og hefur landsliðsfólk þá tvo kosti; greiða háar upphæðir eða sleppa því að spila fyrir landsliðið.

Jóna, sem leikur með KA og býr á Akureyri, segir það koma sér afar illa fyrir sig og fleira landsliðsfólk að þurfa að greiða fyrir að leika með landsliðinu. Þá var hún í einn og hálfan mánuð að æfa með landsliðinu í Reykjavík og þurfti sjálf að finna húsnæði, án þess að fá styrk.  

„Þetta er mjög erfitt. Það er ekkert komið til móts við mann. Maður þarf að hætta vinnu og þá verður maður af tekjum,“ sagði Jóna m.a. við Valtý. Hún bætti við að einhverjir leikmenn hefðu ekki tekið þátt í verkefninu vegna kostnaðar. „Við vorum aldrei með besta liðið okkar,“ sagði Jóna.

Sigurbjörn Grétar Eggertsson formaður Blaksambands Íslands staðfesti við Valtý í sama þætti að sambandið þyrfti að standa straum af útsendingarkostnaði RÚV vegna leikjanna og kostnaðurinn væri samtals um 400 til 450 þúsund krónur á hvern leikmann vegna sex leikja en rætt er ítarlega við Grétar um málið í þættinum. „Maður vill ekki senda afreksfólkinu sínu greiðsluseðil upp á 450 þúsund fyrir að taka þátt í landsleikjum. En þetta er umhverfið," sagði Grétar meðal annars.

Þáttinn má nálgast á Spotify með því að smella hér, en hann er einnig á öðrum helstu hlaðvarpsveitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert