Annað heimsmet Íslands í íssundi

Maja Olszewska, Marta Piasecka, Agnieszka Narkiewicz Czurylo, Przemyslaw Pulawski og …
Maja Olszewska, Marta Piasecka, Agnieszka Narkiewicz Czurylo, Przemyslaw Pulawski og Mateusz Blacha. Ljósmynd/Zimnolubni Islandia

Marta Piasecka setti í gær nýtt heimsmet kvenna fyrir Íslands hönd í opnum flokki í 100 metra fjórsundi á heimsmeistaramótinu í íssundi í Samoens í Frakklandi. Kom hún fyrst í mark á 1,15:38 mínútum.

Keppnin var æsispennandi þar sem þrjár sundkonur, Ezmee Jones frá Bandaríkjunum, Zoé Ducret frá Frakklandi og Michelle Lane frá Bretlandi, fylgdu fast á hæla Mörtu og voru líkt og hún allar undir gamla heimsmetinu.

Um er að ræða annað heimsmet íslenska liðsins á mótinu en á laugardag setti Maja Olszewska heimsmet í opnum flokki í 100 metra baksundi á tímanum 1,12:71, en sá tími hefði dugað henni í 11. sæti í karlaflokki.

Marta og Maja eru báðar af pólsku bergi brot­nar, búa á Íslandi og eru í sund­fé­lag­inu Zimnolubni Islandia. Þrír aðrir úr sund­fé­lag­inu tóku þátt á heims­meist­ara­mót­inu.

Sex gullverðlaun alls

Przemyslaw Pulawski tók þátt í 50, 100 og 500 metra skriðsundi og vann til gullverðlauna í 50 metra skriðsundi í aldursflokkinum 30-34 ára á tímanum 27:24 og hafnaði í sjötta sæti í opnum flokki. 

Aðrir fulltrúar Íslands voru Mateusz Blacha og Agnieszka Narkiewicz Czurylo, en Agnieszka er liðsstjóri liðsins. Hún synti í gær 250 metra skriðsund á tímanum 5,38;37 sem er persónuleg bæting. 

Liðið tók einnig þátt í boðsundum og náði þriðja sæti í opnum flokki í 4x50 metra fjórsundi. Alls unnu fulltrúar Íslands tvö gull, eitt silfur, og eitt brons í opnum flokki og fjögur gull, tvö silfur og tvö brons í aldursflokkum. 

Af 43 liðum sem tóku þátt á mótinu hafnaði lið Íslands í sjötta sæti þrátt fyrir að einungis fimm sundmenn hefðu keppt fyrir Íslands hönd á mótinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert