Tvær ellefu ára gamlar stúlkur þreyttu frumraun sína sem leikmenn í meistaraflokki þegar lið þeirra, Skautafélag Reykjavíkur, sótti heim lið Skautafélags Akureyrar um helgina í tveimur leikjum á Íslandsmótinu.
Þær Ylfa Kristín Bjarnadóttir og Þóra Mila Grossa Sigurðardóttir verða báðar tólf ára síðar í þessum mánuði og eru í hópi ungra stúlkna sem nú skipa lið SR og stefna á að ná langt með því á næstu árum. Báðar spiluðu þær mikið í þessum fyrstu leikjum sínum á stóra sviðinu.
Friðrika Ragna Magnúsdóttir, samherji þeirra, hélt upp á 14 ára afmælið sitt á laugardaginn þegar fyrri leikur liðanna fór fram og þar tókst henni að skora sitt fyrsta mark í meistaraflokki.
Marki Friðriku var óvænt fagnað af hörðum stuðningsmanni Akureyringa en það reyndist vera afi hennar og faðir Jóhanns Leifssonar, móðurbróður Friðriku og lykilmanns í karlaliði Skautafélags Akureyrar mörg undanfarin ár.
Þrautreynt lið SA vann báða leikina gegn SR, 7:0 og 8:2, en hið unga lið SR er farið að veita keppinautum sínum í SA og Fjölni meiri keppni í vetur en á síðustu árum.