Spænska hjólreiðakonan Estela Domínguez er látin, aðeins 19 ára að aldri, eftir árekstur við vörubíl á meðan hún æfði á götum úti nálægt Salamanca í heimalandinu í gær.
Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hún úrskurðuð látin á staðnum. Var hún nýbúin að gera samning við spænska atvinnumannafélagið Sopela þegar slysið átti sér stað.
„Það tekur okkur gríðarlega sárt að tilkynna að Estela Domínguez hafi látið lífið í kvöld, eftir að hafa orðið fyrir bíl á æfingu. Við stöndum með fjölskyldunni hennar á þessum hræðilegu tímum,“ segir í yfirlýsingu félagsins á Twitter.
El País greinir frá að lág kvöldsól hafi verið ástæða þess að bílstjórinn sá ekki hjólreiðakonuna ungu, með áðurgreindum afleiðinum.