Fjölnir hafði betur gegn SA, 4:2, í uppgjöri efstu liðanna í Hertz-deild kvenna í íshokkí í Egilshöll í dag.
Sigrún Árnadóttir skoraði fyrsta mark Fjölnis í fyrsta leikhluta áður en Magdalena Sulova jafnaði metin fyrir norðankonur.
Fjölniskonur skoruðu tvö mörk í öðrum leikhluta og komu sér í vænlega stöðu. Sigrún Árnadóttir var fyrst á ferðinni og kom Fjölni yfir 2:1 og það var svo María Kristjánsdóttir sem skoraði fyrir Grafarvogsliðið og kom Fjölni í 3:1 áður en leikhlutinn var allur.
Kolbrún Garðarsdóttir bætti fjórða marki heimakvenna við í þriðja leikhluta áður en fyrirliði SA, Herborg Geirsdóttir, klóraði í bakkann. Lokatölur voru 4:2.
SA situr enn á toppi deildarinnar með 33 stig en Fjölniskonur færast nær og hafa 27 stig að loknum 13 umferðum.