Hreppti bronsið í langstökki

Irma Gunnarsdóttir.
Irma Gunnarsdóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

Irma Gunnarsdóttir varð í þriðja sæti í langstökki á Norðurlandameistaramótinu innanhúss í Karlstad í Svíþjóð í dag.

Irma stökk lengst 6,32 metra, sem er aðeins tveimur sentímetrum frá hennar besta árangri.

Hafdís Sigurðardóttir varð sjötta en hún stökk lengst 6,19 metra, sem er besti árangur hennar á árinu.

Þá var Kolbeinn Höður Gunnarsson fjórði í 60 metra hlaupi á tímanum 6,75 sekúndur en hans besti árangur og Íslandsmetið sem hann setti í janúar er 6,68 sekúndur.

Ólympíufarinn og Íslandsmethafinn í kringlukasti Guðni Valur Guðnason varð fjórði í kúluvarpi og náði sínum besta árangri á árinu þegar hann kastaði 18,15 metra. Sindri Lárusson varð sjöundi með kast upp á 16,48 metra.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í sjötta sæti í 200 metra hlaupi er hún hljóp á 24,12 sekúndum, sem er hennar besti árangur á árinu. Þá varð hún áttunda í 60 metra hlaupi á tímanum 7,69 sekúndur.

Vigdís Jónsdóttir opnaði tímabilið sitt í lóðkasti og kastaði lengst 17,99 metra sem dugði í sjötta sæti. Hún á best 18,67 metra.

Elías Óli Hilmarsson varð sjöundi í hástökki með stökk upp á 2,00 metra en hans besti árangur í ár og hans persónulegi besti árangur er 2,07 metrar.

Ísak Óli Traustason varð sjöundi í 60 metra grindahlaupi á tímanum 8,31 sekúndur sem er hans besti árangur á árinu.

Daníel Ingi Egilsson varð sjöundi í þrístökki en hann stökk lengst 14,78 metra. Hann hefur stokkið lengst 15,21 metra í ár sem er hans besti árangur innanhúss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert