Hin íranska Sara Khadem, ein fremsta skákkona Írans, hefur verið gerð útlæg frá heimalandi sínu. Handtökuskipun bíður Khadem ákveði hún að snúa aftur til Írans.
Khadem, sem er 25 ára gömul, tók þátt á skákmóti í Kasakstan í desember síðastliðnum og ákvað þar að klæðast ekki höfuðslæðu sinni.
Samkvæmt strangri íslamskri löggjöf í Íran þurfa íranskar konur að klæðast höfuðslæðunni öllum stundum á almannafæri, og á það sömuleiðis við þegar þær eru staddar í öðrum löndum.
Ástæðuna fyrir ákvörðun sinni sagði Khadem vera stuðning við fjöldamótmælin sem hafa staðið yfir í Íran frá því í september á síðasta ári, í kjölfar þess að Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglu Írans undir afar grunsamlegum kringumstæðum.
Amini, sem var 22 ára, hafði sjálf staðið í mótmælum er hún barðist fyrir auknum réttindum kvenna með því að neita því að klæðast höfuðslæðu sinni á almannafæri í landinu og var tekin höndum.
Í samtali við BBC sagði Khadem að ákvörðunin um að taka þátt á mótinu í Kasakstan án höfuðslæðu væri það minnsta sem hún gæti gert til stuðnings við baráttuna í heimalandinu.
Khadem heldur nú til á Suður-Spáni ásamt eiginmanni sínum og eins árs syni.