Eþíópíski hlauparinn Lamecha Girma sló í gær 25 ára gamalt heimsmet í 3000 metra hlaupi innanhúss þegar hann keppti á Hauts-de-France mótinu í Pas-de-Calais í Frakklandi í gær.
Girma hljóp á tímanum 7:23,81 og sló þar með gamla heimsmetið um rúma sekúndu.
Það átti Keníubúinn Daniel Komen og setti í Búdapest árið 1998. Hljóp Komen á 7:24,90 mínútum.
Mohamed Katir frá Spáni kom annar í mark á eftir Girma í gær og það raunar einnig á betri tíma en heimsmet Komens, 7:24,58 mínútum.
Girma vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó sumarið 2021 í 3000 metra hindrunarhlaupi.