Mikaela Shiffrin, fremsta alpaskíðakona heims, verður án þjálfara síns Mike Day það sem eftir lifir heimsmeistaramótsins í alpagreinum sem nú fer fram í Meribel í Frakklandi.
Það er ESPN sem greinir frá þessu en Shiffrin greindi frá því, eftir að hún hafði unnið til silfurverðlauna í síðustu viku í stórsvigi, að hún hefði hug á að skipta um þjálfara að keppnistímabilinu loknu.
Day virðist ekki hafa tekið ummælum Shiffrin vel því hann lét sig hverfa á dögunum en þetta staðfesti stjórnarmaður hjá bandaríska skíðasambandinu í samtali við ESPN.
Shiffrin tekur þátt í risasvigi í dag og svo í svigi á morgun en hún er sigursælasta alpaskíðakona í heimsbikarnum frá upphafi.
Þá hefur hún unnið til sex gullverðlauna á heimsmeistaramóti á ferlinum og tólf verðlauna alls á HM.