Á ég ekki líka að fara á Ólympíumótið?

Þorsteinn Halldórsson (t.v.).
Þorsteinn Halldórsson (t.v.). mbl.is/Árni Sæberg

Þorsteinn Halldórsson, bogfimimaður úr Akri á Akureyri, hefur vakið athygli fyrir góðan árangur sinn í  flokki karla með skerta hreyfigetu í trissuboga undanfarin ár. Þorsteinn byrjaði einungis í bogfimi fyrir níu árum.

Hann skaust hratt upp á stjörnuhimininn og tók þátt á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó árið 2016, aðeins tveimur árum eftir að hafa byrjað að iðka íþróttina.

En hvað kom til þess að Þorsteinn byrjaði í bogfimi, þá 43 ára gamall?

„Ég var nú bara á Reykjanesi í þjálfun og þar var maður sem var í hjólastól sem fór að tala um það við mig að hann langaði á bogfiminámskeið. Ég vissi þá ekki einu sinni að það væri stunduð bogfimi á Íslandi.

Ég ákvað að fara með honum á þetta námskeið, hann kláraði það ekki þar sem það var bara of erfitt fyrir hann, ferðaþjónustan og allt það vesen. En ég hafði bara gaman að þessu,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Sogaðist hratt inn í bogfimina

„Svo fór einhver að tala um að hann langaði að fara á Ólympíumótið 2016 og ég sagði bara: „Ókei, á ég ekki líka að fara á það?“ Ég mætti til Íþróttasambands fatlaðra og þeir sögðu við mig: „Ha? Það er enginn að fara.“

Maður sogaðist hratt inn í þetta og síðan náði ég verðlaunasæti á móti 2015 þannig að það gekk allt eftir. Eftir það lagði ég mig allan fram við þetta, æfði og æfði og það hefur gengið vel,“ bætti Þorsteinn við.

Vont að hafa ekki fleiri tækifæri

Hann sagði að það helsta sem hái íþróttinni hér á landi sé aðstöðuleysi. Það standi þó til bóta með nýrri bogfimiaðstöðu í Miðgarði í Garðabæ.

„Það eru komin rými fyrir bogfimi í nýja íþróttahúsinu í Garðabæ, fokheld rými sem eru ekki komin í notkun. Það breytir öllu að hafa aðstöðu, það er náttúrlega aðalatriðið sem háir íþróttinni á Íslandi, það er aðstöðuleysi, hvort sem maður er fatlaður eða ófatlaður.“

Að búa á Íslandi kemur einnig töluvert í veg fyrir að Þorsteinn geti keppt jafn oft og margir keppinauta hans frá öðrum löndum.

„Ég keppi náttúrlega ekki eins oft, það eru mót í öðrum löndum með fleiri tækifæri og þá breytist heimslistinn og álfulistarnir. Það er auðvitað vont fyrir mig að hafa ekki fleiri tækifæri.“

Hann er í 21. sæti á heimslistanum og 16. sæti á Evrópulistanum sem stendur og minni þátttaka á mótum hefur vitanlega áhrif á stöðu Þorsteins á listunum.

Keppir næst um þarnæstu helgi

Hann hafnaði í níunda sæti á EM fatlaðra í ágúst síðastliðnum og vann svo til gullverðlauna og setti Íslandsmet á Íslandsmóti öldunga innandyra í desember.

Þorsteinn ásamt Marcel Pavlik frá Slóvakíu og Keseniyu Markitantova frá …
Þorsteinn ásamt Marcel Pavlik frá Slóvakíu og Keseniyu Markitantova frá Úkraínu. mbl.is/Árni Sæberg

Þorsteinn hefur því ekki keppt síðan í desember. „Nei en núna þann 25. febrúar fer opna Íslandsmótið, fyrir alla aldurshópa, fram,“ útskýrði hann.

Erum að leita og leita

Eins og kom fram í viðtali Morgunblaðsins við Þorstein á miðvikudag vill bogfimifólk á Íslandi gjarna fá fleira fólk í íþróttina.

„Við erum að leita og leita. Við erum öll af vilja gerð að hjálpa fólki sem vill koma og prófa, þó það sé ekki nema bara það. Það eru ekkert allir sem geta þetta.

Það hafa komið menn hérna og það hefur bara komið í ljós að styrkur í baki og annað leyfir þetta ekki og þá er bara búið að prófa.

Ég er alveg til í að hitta einhvern hvenær sem er og skoða þetta. Fólk getur haft samband við ÍF til þess að koma. Það þarf ekki að kosta neitt, allavega ekki í byrjun,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert