Gauti Guðmundsson náði að komast í hóp sextíu efstu keppendanna í fyrri ferð stórsvigskeppninnar á heimsmeistaramótinu í alpagreinum í Méribel í Frakklandi í dag og verður því með í seinni umferðinni eftir hádegið.
Gauti hafnaði í 56. sæti í fyrri ferðinni af 100 keppendum sem komust í aðalkeppnina og fór brautina á 1 mínútu, 37,83 sekúndum.
Marco Schwartz frá Austurríki náði besta tímanum í fyrri ferðinni með tímann 1:19,47 mínútu. Marco Odermatt frá Sviss varð annar á 1:20,05 mínútu og Zan Kranjec frá Slóveníu varð þriðji á 1:20,23 mínútu.
Gauti og Jón Erik Sigurðsson voru á meðal þátttakenda í undankeppni stórsvigsins þar sem keppt var um 25 sæti í aðalkeppninni.
Gauti endaði í 32. sæti undankeppninnar og Jón Erik í 38. sæti en þar sem Íslandi hafði verið úthlutað eitt sæti í aðalkeppninni komst Gauti þangað.