Daníel stórsló 12 ára gamalt Íslandsmet

Daníel Ingi Egilsson stórsló mótsmetið á Meistaramóti Íslands í dag.
Daníel Ingi Egilsson stórsló mótsmetið á Meistaramóti Íslands í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Daníel Ingi Egilsson úr FH náði frábærum árangri á Meistaramóti Íslands innanhúss þegar hann vann örugglega í þrístökki í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í dag og stórsló í leiðinni Íslandsmetið í greininni.

Daníel Ingi stökk lengst 15,49 metra, og stórsló þannig Íslandsmet Kristins Torfasonar frá árinu 2011, sem var 15,27 metrar.

Í fyrsta stökki sínu jafnaði Daníel Ingi mótsmet Kristins, 15,23 metra, annað stökk hans var dæmt ógilt og í þriðja stökkinu stórsló hann Íslandsmetið metið með því að stökkva 15,35 metra.

Daníel Ingi lét ekki þar við sitja og stökk 15,30 metra í fjórða stökki, fimmta stökk hans var dæmt ógilt og í sjötta og síðasta stökki sínu stórbætti hann eigin árangur enn á ný og stórsló þannig aftur Íslandsmetið.

Stökk Daníel Ingi þar með lengra en 12 ára gamalt Íslandsmet Kristins í þrígang.

Hann á enn nokkuð langt í land með að slá Íslandsmetið utanhúss. Vilhjálmur Einarsson stökk 16,70 metra fyrir 62 árum, þegar ekki var keppt innanhúss í þrístökki.

Lengst hefur Daníel Ingi stokkið 15,31 metra utanhúss í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert