Frjálsíþróttamaðurinn Daníel Ingi Egilsson úr FH sló tólf ára gamalt Íslandsmet Kristins Torfasonar í þrístökki innanhúss er hann stökk lengst 15,49 metra á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum í Laugardalshöll á laugardaginn var. Met Kristins frá árinu 2011 var 15,27 metrar.
„Ég vissi það allan tímann að það var ekki spurning hvort, heldur hvenær. Mér fannst þetta alltaf liggja í loftinu, mér fannst það bara spurning hvenær það myndi gerast,“ sagði Daníel Ingi í samtali við Morgunblaðið um Íslandsmetið.
Stökksería Daníels á mótinu var hin glæsilegasta, því hann byrjaði á því að jafna mótsmet Kristins í fyrsta stökki, 15,23 metrar. Í þriðja stökkinu sló hann svo Íslandsmetið með stökki upp á 15,35 metra. Hann stökk 15,30 metra í fjórða stökki og beið með lengsta stökkið þar til í síðustu umferðinni. Hann sló því Íslandsmet Kristins í þrígang á örskömmum tíma.
„Mér leið rosalega vel fyrir síðasta stökkið. Ég hugsaði með mér að ég hefði engu að tapa, því ég væri búinn að slá þetta met. Ég einbeitti mér að því að setja allt gjörsamlega í botn og sjá hvað myndi gerast,“ sagði hann.
Viðtalið við Daníel má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.