SA tryggði sér deildarmeistaratitil kvenna í íshokkí með 4:2-heimasigri á Fjölni í Skautahöll Akureyrar í dag.
Guðrún Viðarsdóttir kom Fjölni yfir með eina marki fyrstu lotunnar en þær Hilma Bergsdóttir og Amanda Bjarnadóttir sneru taflinu við í annarri.
Hilma bætti við tveimur mörkum í þriðju lotu og kom SA í 4:1. Sigrún Árnadóttir minnkaði muninn í 4:2 tæpum tíu mínútum fyrir leikslok og þar við sat.
SA er með 39 stig í toppsætinu, níu stigum á undan Fjölni, þegar aðeins einum leik er ólokið í deildarkeppninni, en hann fer fram á morgun er SA og Fjölnir mætast á ný.