Jessie Diggins frá Bandaríkjunum varð í dag heimsmeistari í 10 km skíðagöngu kvenna í Planica í Slóveníu en á meðal keppenda voru þær Kristrún Guðnadóttir og Gígja Björnsdóttir.
Diggins vann sannfærandi sigur og kom í mark á 23:40,8 mínútum, fjórtán sekúndum á undan Fridu Karlsson frá Svíþjóð sem fékk tímann 23:54,8 mínútur. Bronsið fór líka til Svíþjóðar en það hreppti Ebba Andersson sem gekk vegalengdina á 24:00,3 mínútum.
Kristrún var með rásnúmer 67 og kom í mark í 58. sæti af 81 keppanda í göngunni á 28:29,4 mínútum.
Gígja var með rásnúmer 75 og kom í mark í 66. sæti á 30:13,8 mínútum.