Krüger heimsmeistari – Snorri í 22. sæti

Simen Hegstad Krüger fagnar sigrinum í dag.
Simen Hegstad Krüger fagnar sigrinum í dag. AFP/Joe Klamar

Norðmaðurinn Simen Hegstad Krüger kom fyrstur í mark í 15 kílómetra skíðagöngu karla og tryggði sér þannig heimsmeistaratitilinn á HM í skíðagöngu í Planica í Slóveníu í dag. Snorri Einarsson náði góðum árangri er hann hafnaði í 22. sæti.

Snorri kom í mark á 34:09,8 mínútum en þetta er hans næstbesti árangur á heimsmeistaramóti. Aðeins tíu þjóðir áttu keppendur í sætunum fyrir ofan Snorra sem var m.a. á undan öllum keppendum frá stórum skíðaþjóðum á borð við Ítalíu, Kanada, Sviss, Slóveníu og Spán.

Snorri Einarsson.
Snorri Einarsson. Ljósmynd/SKÍ

Norðmenn skipuðu sér í efstu fjögur sætin. Krüger kom í mark á 32:17,4 mínútum og skammt undan var Harald Östberg Amundsen á tímanum 32:22,7.

Á eftir þeim voru svo Hans Christer Holund á 32:42 og Johannes Hösflot Klæbo á 32:42,9 mínútum.

Tveir aðrir Íslendingar tóku þátt í 15 km skíðagöngunni í dag. Það voru þeir Albert Jónsson, sem hafnaði í 72. sæti, og Dagur Benediktsson, sem hafnaði í 75. sæti af þeim 94 sem luku keppni en 100 höfðu fengið keppnisrétt í göngunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert