Spánverjinn Pelayo Novo, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og síðar hjólastólatennisleikari, er látinn, aðeins 32 ára að aldri, eftir að hafa orðið fyrir lest.
Á knattspyrnuferli sínum lék Novo með uppeldisfélagi sínu Oviedo ásamt Elche, Córdoba, Lugo og Albacete í heimalandinu og var einnig á mála hjá rúmenska félaginu CFR Cluj um skeið.
Hann neyddist til að leggja knattspyrnuskóna á hilluna vorið 2018 eftir að hafa lamast varanlega í kjölfar þess að Novo féll til jarðar af þriðju hæð á liðshóteli Albacete fyrir leik liðsins í spænsku B-deildinni.
Eftir knattspyrnuferilinn hóf hann að leika hjólastólatennis og varð til að mynda svæðismeistari í Asturias á Spáni árið 2021.
La Nueva Espana greinir frá því að Novo hafi orðið fyrir lest í heimaborg sinni Oviedo í gær og hafi í kjölfarið látist af sárum sínum.
Lögreglan í Oviedo rannsakar nú tildrög slyssins.