„Þetta er bráðungur andskoti“

Hörður í hnébeygjunni í dag þar sem 170 kg fóru …
Hörður í hnébeygjunni í dag þar sem 170 kg fóru upp og voru Íslandsmet. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

„Ég fór upp í 170 í hnébeygjunni sem er nýtt met fyrir mig og Íslandsmet en 175 klikkaði,“ segir Hörður Birkisson í samtali við mbl.is, annar íslenski keppandinn í röð fjögurra Íslendinga sem nú gerast hamrammir á Evrópumeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum í Búdapest í Ungverjalandi.

Hreppti Hörður þar fimmta sætið af sjö í sínum þyngdarflokki, -74 kg flokki 60 til 69 ára, en honum varð hálft á svellinu í réttstöðulyftunni þar sem hann á þó mun meira en það sem ekki vildi upp í dag.

Í bekkpressu setti hann annað Íslandsmet sem var bæting á hans eigin Íslandsmeti en metið í dag var 102,5 kg, bæting um 2,5 á fyrra metinu.

Annað Íslandsmet á ferilskrána í bekkpressu þar sem Hörður lyfti …
Annað Íslandsmet á ferilskrána í bekkpressu þar sem Hörður lyfti 102,5 kg en metið var bæting á fyrra Íslandsmeti hans sjálfs um 2,5 kg. Ljósmynd/Elsa Pálsdóttir

Eftir fyrstu tvær greinarnar, hnébeygju og pekkpressu, var Hörður í öðru sæti í flokknum en sem fyrr segir var réttstaðan, deddið svokallaða, honum erfiður ljár í þúfu í dag. „Til stóð að fara í 200 kíló og ég byrjaði í 180 en svo fór það þannig að það varð lokaþyngdin í greininni, náði henni í þriðju tilraun,“ segir Hörður, „svona er þetta stundum.“

Stöngin fór skökk í loftið hjá honum í fyrstu lyftunni „og þá fór svo mikið átak í að rétta hana af að ég missti gripið og svo var bara ekkert að gerast hjá mér í annarri lyftunni, hausinn var bara ekki rétt skrúfaður á en það slapp fyrir horn að klára þetta þótt það væri ekki meira“, segir Hörður léttur í bragði en hann hafði 180 upp í þriðju lyftunni.

Ekki þjálfari – bara frekari en sumir aðrir

Nú getur Kristleifur Andrésson, þjálfari þriggja af fjórum Íslendingum á mótinu sem æfa undir merkjum Massa í Njarðvík, ekki setið undir hógværð Harðar lengur og tekur af honum símann.

„Þetta átti að vera mjög létt byrjunarþyngd hjá honum, 180, og næsta átti svo að vera 192,5 sem er Íslandsmet. Það hefði dugað honum til að enda með silfur á palli og hann er búinn að margtaka þá þyngd, þarna gerðist bara eitthvað sem er ekki gott að segja hvað var en sem betur fer náði hann þriðju lyftu og þá var þetta skítlétt,“ segir Kristleifur, en Hörður hefur lyft mest 204 kílógrömmum í réttstöðunni.

Engum blöðum er um það að fletta að Hörður er …
Engum blöðum er um það að fletta að Hörður er „bráðungur andskoti“ eins og Kristleifur þjálfari orðar það. Hér á verðlaunapalli með brons í hnébeygju. Ljósmynd/Elsa Pálsdóttir

„Þetta er bráðungur andskoti þannig að næsta mót verður tekið með stæl, það er ekkert annað í boði,“ segir Kristleifur og hlær tröllahlátri. Hann vísar því alfarið á bug að vera þjálfari keppenda Massa á mótinu. „Við erum bara að æfa þarna saman og hjálpumst að, ég er kannski frekari en sumir aðrir en margir koma að málinu þarna og hjálpa til,“ segir Kristleifur af æfingaandanum í Massa í Njarðvík sem er „eins konar kraftlyftingafélag“ en heyrir í raun undir Ungmennafélag sveitarfélagsins. „Þarna er fólk á öllum aldri að æfa, ég held að sá elsti sé níræður, og menn þurfa ekkert að koma í einhverjum spandex-galla,“ segir Kristleifur og hlær á ný.

„Ég er bara hérna til að vekja fólk á morgnana og skammast aðeins, það verða met hjá öllum keppendum á þessu móti,“ heldur hann áfram og talar þar líka fyrir hönd eina keppandans sem ekki keppir á vegum Massa sem er Hinrik Pálsson, nýbakaður formaður Kraftlyftingasambands Íslands, en Hinrik gengur undir stöngina á morgun.

Hörður ásamt þjálfara þriggja af fjórum íslenskum keppendum í förinni, …
Hörður ásamt þjálfara þriggja af fjórum íslenskum keppendum í förinni, Kristleifi Andréssyni, sem vísar því þó alfarið á bug að vera þjálfari, hann sé bara frekari en sumir aðrir í Massa í Njarðvík og sé með í för til að koma keppendum á fætur og skammast aðeins. Ljósmynd/Elsa Pálsdóttir

Hyggjast aka heim frá Mongólíu

Hörður fær nú orðið aftur í viðtalinu og segir undirbúning fyrir mótið hafa gengið vel, „það er ekki hægt að kvarta yfir því“, segir hann og kveður næsta stórmót á stefnuskránni HM í Mongólíu í haust. Það er þó alls ekki hans næsta mót, Kristleifur þjálfari er alveg með það á tæru. „Nei nei, það er Íslandsmet í réttstöðulyftu fyrst sem hann tekur og þar mun hann taka alla vega 202,5 kíló og bæta fyrir þessi 180 í dag,“ segir þjálfarinn sem að sjálfsögðu fer með sínu fólki til Mongólíu og er með mjög háleitar væntingar fyrir þá för sem ekki tengjast öll lyftingum.

„Já, við ætlum að fljúga þangað, kaupa bíl þar og keyra til baka. Hörður er bifvélavirki og svo á ég son sem heitir líka Hörður og hann er ljósmyndari af guðs náð svo við erum með allt sem þarf í þetta,“ segir Kristleifur Andrésson, þjálfari og frekja í Massa í Njarðvík, og þeir Hörður Birkisson láta vel af sér eftir daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert