Nýr formaður með tvö Íslandsmet

Hinrik Pálsson var ánægður með daginn í Búdapest og kveður …
Hinrik Pálsson var ánægður með daginn í Búdapest og kveður allt hafa gengið samkvæmt áætlun. Tvö Íslandsmet og 550 kg í samanlögðu. Ljósmynd/Hörður og Elsa

„Allt gekk samkvæmt áætlun hjá mér í dag, ég var búinn að vera veikur í aðdraganda mótsins og þess vegna náði ég bara einni æfingu síðustu tvær vikur svo ég renndi aðeins blindar í sjóinn en ella með hvað ég gæti og hvað væri í tankinum,“ segir Hinrik Pálsson, nýbakaður formaður Kraftlyftingasambands Íslands og einn fjögurra íslenskra keppenda á Evrópumeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum í Búdapest í Ungverjalandi.

Vafasamt er þó að telja Hinrik til öldunga, rétt 49 ára gamlan, en þar sem hann verður fimmtugur á árinu er honum stætt á að rífa í stálið undir merkjum aldursflokksins 50 til 59 ára þar sem hann keppir í -105 kg flokki og varð níunda sætið hans í dag í hópi þrettán keppenda.

Hinrik lyfti mest 185 kg í hnébeygju þar sem hann hafði þó ákveðið að hafa vaðið fyrir neðan sig þar sem sú grein hafði ekki verið honum sem tömust undanfarið. Orkan reyndist þó meiri en næg svo hann færðist allur í aukana en mest á Hinrik 195 kg í beygjunni.

Í lokalyftunni fékk hann rauð ljós, ekki gilt, frá tveimur af þremur dómurum fyrir að fara ekki nógu djúpt í beygjunni en kviðdómur tók lyftuna þá til skoðunar og sneri þeim úrskurði Hinrik í vil.

550 í samanlögðu gekk eftir

„Allar lyftur voru því gildar hjá mér í dag, bekkpressan og réttstaðan fóru svo algjörlega eftir áætlun, ég endaði í 162,5 í bekknum og 202,5 í deddinu, allt öruggar og góðar lyftur sem ég var mjög ánægður með,“ segir Hinrik. Var árangur hans, talið eftir sætum, bestur í bekkpressunni þar sem hann hafnaði í fimmta sæti.

Hinrik setti tvö Íslandsmet í dag, annað þeirra hnébeygjan sem var bæting um 7,5 kg á eldra Íslandsmeti Helga Briem en hitt Íslandsmetið var í samanlögðu, 550 kg, en þess má geta til gamans að það var einmitt talan sem Hinrik nefndi við blaðamann sólarhring fyrir þetta viðtal þegar markmið hans í dag bar á góma.

„Ég er bara mjög sáttur við hvernig dagurinn fór, ég var á góðri siglingu fyrir þessi veikindi en þrátt fyrir þau skilaði vinnan sér sem hafði verið lögð inn. Ég þurfti að fara varlegar í sakirnar en ella en þegar á hólminn var komið var ég fullur af orku og var líka mjög ánægður með tæknilega útfærslu á lyftunum hjá mér, ég finn að ég er að bæta mig mjög mikið þar svo margt var mjög gott í þessu og það veit á gott um framhaldið,“ segir Hinrik.

Íslenski hópurinn vígreifur, frá vinstri Kristleifur Andrésson, sem viðurkennir ekki …
Íslenski hópurinn vígreifur, frá vinstri Kristleifur Andrésson, sem viðurkennir ekki að hann sé þjálfari, Hinrik Pálsson, Benedikt Björnsson, Elsa Pálsdóttir og Hörður Birkisson. Ljósmynd/Einhver stangarmaður

Hann lætur vel af undirbúningi fyrir mótið þar til hann fékk téða kvefpest, en talandi um framhaldið, hvað ber framtíðin í skauti sér?

„Næsta mót hjá mér er Íslandsmótið í bekkpressu í apríl og Evrópumótið í bekkpressu í Frakklandi í ágúst,“ segir Hinrik en stefna hans er hins vegar ekki tekin á heimsmeistaramótið í Mongólíu á haustmánuðum. Þangað stefna förunautar hans í Búdapest hins vegar, þau Elsa Pálsdóttir og Hörður Birkisson, sem mbl.is ræddi við í gær og fyrradag.

Ekki eins og menn sláist um formannssætið

Sem fyrr segir er Hinrik nýbakaður formaður Kraftlyftingasambandsins og ótækt annað en að spyrja hann örlítið út í nýtt embætti og nýja drauma.

„Ég var búinn að vera í stjórn í tvö ár sem varaformaður og svo varð ljóst að Gry [Ek] sem var formaður vildi hætta og það lá einhvern veginn í kortunum að ég hefði áhuga á að taka við, það er ekki eins og menn séu að slást um að taka þetta að sér,“ segir Hinrik og hlær við, „það var einn sem bauð sig fram á móti mér en dró svo framboð sitt til baka þannig að ég var sjálfkjörinn,“ heldur hann áfram.

Hinrik ánægður eftir góðan árangur í bekk.
Hinrik ánægður eftir góðan árangur í bekk. Ljósmynd/Elsa og Hörður

Hann segist vita að hann eigi öfluga samherja í stjórn sambandsins svo verkefnið fram undan byggist á góðri samvinnu nýs formanns og stjórnarinnar.

Aðspurður kveðst Hinrik taka við góðu búi, sambandið standi vel fjárhagslega og hafi rekið öfluga stefnu í afreksmálum. „Ég sé fyrir mér að halda því áfram og gefa í eins og hægt er, iðkendum er að fjölga, þátttaka í mótum snareykst, til dæmis tóku tæplega 40 manns þátt í byrjendamóti núna í febrúar, sem hefur yfirleitt verið lítið og nett mót sem hefur verið notað til að prófa nýja dómara, og á Íslandsmótinu sem haldið verður í Miðgarði í Garðabæ núna um helgina eru milli 70 og 80 keppendur sem er algjör sprenging,“ segir formaðurinn.

Nýr afreksstjóri lyftistöng

Það sem geri það sérstaklega spennandi að vera með puttann á púlsi íþróttahreyfingarinnar er að sögn Hinriks hve mikið sé að gerast í afreksmálum innan Íþrótta- og ólympíusambandsins, til dæmis með ráðningu nýs afreksstjóra en það er enginn annar en kringlukastsgoðsögnin Vésteinn Hafsteinsson frá Selfossi, þjálfari margra heimsþekktra kringlukastara síðustu áratugi.

Réttstöðulyftan gekk öll að óskum, 202,5 kg flugu upp þar.
Réttstöðulyftan gekk öll að óskum, 202,5 kg flugu upp þar. Ljósmynd/Elsa og Hörður

„Eitt af því sem ég sé sem mikið tækifæri fyrir okkur [Kraftlyftingasambandið] er að vera fullir þátttakendur í því starfi og að afreksmálunum verði lyft upp á hærra stig hjá okkur,“ segir Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands og keppandi á EM öldunga í Búdapest í dag.

Seinastur keppenda á EM í Búdapest er Benedikt Björnsson sem keppir á laugardaginn, mbl.is fylgist með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert