Patrick Kane hefur sagt skilið við Chicago Blackhawks eftir sextán ár hjá félaginu og er genginn í raðir New York Rangers í NHL-deildinni í íshokkí.
Kane er 34 ára og vann Stanley bikarinn þrívegis með Blackhawks. Félagaskiptin gefa Rangers aukna möguleika á að gera alvöru atlögu að fyrsta meistaratitli Rangers í tæp 30 ár.
Kane er gjarnan nefndur sem einn besti bandaríski íshokkímaður frá upphafi og ferill hans í NHL talar sínu máli. Er hann sjöundi markahæsti Bandaríkjamaðurinn í NHL frá upphafi og fjórði á listanum yfir Bandaríkjamenn sem gefið hafa flestar stoðsendingar í NHL.
Kane hefur skorað 16 mörk og gefið 29 stoðsendingar í 54 leikjum í NHL í vetur sem þykir ekki sérlega mikið á hans mælikvarða en lið Chicago Blackhawks hefur verið slakt í vetur. Kane hefur þó leikið betur að undanförnu og skoraði þrennu skömmu áður en hann skipti um félag.
Kane fær um 1 og hálfan milljarð króna í árslaun. Talið er að með þessum liðsauka fari New York Rangers yfir launaþak deildarinnar en félagið hafi gert samning við Arizona Coyotes um að greiða hluta launa Kane.
Ekki hefur verið greint frá því í fjölmiðlum hvað Coyotes fær fyrir sinn snúð. Blackhawks fær valrétti í nýliðavalinu fyrir Kane sem var á síðasta ári á samningi sínum hjá Blackhawks.
Jalen Brunson, stjarna körfuboltaliðs New York Knicks í borginni, er hæstánægður með skipti Kanes og var í gær myndaður í treyju Rangers með nafni hans aftan á.