25 ára þjálfaraferli Vésteins lokið

Vésteinn ánægður með sitt fólk í gær.
Vésteinn ánægður með sitt fólk í gær. Ljósmynd/Vésteinn Hafsteinsson

Vésteinn Hafsteinsson þjálfaði frjálsíþróttir í síðasta sinn í gær er hann var Norðmanninum Marcus Thomsen og hinni sænsku Fanny Roos til halds og trausts á EM innanhúss í Istanbúl.

Roos hafnaði í þriðja sæti í kúluvarpi í kvennaflokki, en hún varpaði kúlunni lengst 18,42 metra. Thomsen varð sjötti í sömu grein í karlaflokki með kast upp á 20,66 metra.

Lærisveinar og -meyjar Vésteins hafa alls náð í 20 verðlaun á EM, HM og Ólympíuleikum. Gerd Kanter frá Eistlandi náði í átta verðlaun í kringlukasti, Daninn Joachim Olsen komst fimm sinnum á pall í kúluvarpi, Daniel Ståhl frá Svíþjóð náði í fjögur í kringlukasti, Roos í tvö í kúluvarpi og Svíinn Simon Petterson ein verðlaun í kringlukasti.

Sjálfur hefur Vésteinn farið á 58 stórmót og þjálfað 57 einstaklinga frá tíu löndum. Í yfirlýsingu sem Vésteinn sendi frá sér í dag, kemur fram að gullverðlaun Gerd Kanter á Ólympíuleikunum 2008 standi upp úr, sem og Ólympíuleikarnir í Tókyó á síðasta ári, þar sem Ståhl náði í gull og Pettersson í silfur.

„Nú fer ég í frí og byrja svo sem afreksstjóri ÍSÍ frá og með 1 maí og ætla að reyna að miðla reynslu minni til íslenskra þjálfara og íþróttafólks og fá í gang góða skipulagningu til langs tíma á Íslandi. Ég kem frískur og fullur eldmóðs inn í það starf og get ekki beðið eftir því að byrja,“ skrifaði Vésteinn í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert