Lokastaða á EM þrjú heimsmet og sjö Íslandsmet

Benedikt vígreifur í hnébeygjunni sem enda lauk með Íslandsmeti þegar …
Benedikt vígreifur í hnébeygjunni sem enda lauk með Íslandsmeti þegar upp var staðið. Ljósmynd/Caroline Hansen

„Allt gekk upp hjá mér í hnébeygjunni, ég fékk allar lyfturnar gildar og náði að bæta Íslandsmetið mitt í hnébeygjunni um fimm kíló,“ segir Benedikt Björnsson, síðasti íslenski keppandinn á Evrópumeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum í Búdapest í Ungverjalandi.

Hafnaði Benedikt í 16. sætinu í fjölmennum hópi 22 keppenda í -93 kg flokki 40 til 49 ára sem er það yngsta sem komist verður til að fá að keppa á öldungamóti.

Bætingarþyngd Benedikts á eigin Íslandsmeti í beygjunni var 235 kg en hann tvíbætti metið, sem var 230 kg, fyrst með því að taka 232,5 kg en svo í þriðju og síðustu lyftu áðurnefnd 235. Hann hóf þar leik með 220 kg lyftu.

„Í bekknum opnaði ég í 140 en fór svo í 150 og fékk ógilt af því ég fór ekki að fyrirmælum, fór of fljótt upp með stöngina. En ég tók það svo í þriðju tilrauninni,“ segir Benedikt.

Réttstaðan ekki alveg rétt

„Ég varð fyrir vonbrigðum með réttstöðuna. Ég tók 240 og fór svo í 260 sem ég var búinn að taka mörgum sinnum á æfingu, var búinn að repsa hana [taka nokkrar endurtekningar með sömu þyngd án hvíldar á milli] en fékk hana tvisvar ógilda vegna tæknilegra mistaka, það var einhver fljótfærni í mér,“ segir Benedikt.

Sérlegur ljósmyndari mbl.is í dag, hin norska Caroline Hansen, komst …
Sérlegur ljósmyndari mbl.is í dag, hin norska Caroline Hansen, komst ekkert allt of nálægt pallinum en við tökum viljann fyrir verkið. Ljósmynd/Caroline Hansen

Auk Íslandsmetsins í hnébeygjunni setti Benedikt Íslandsmet í samanlagðri þyngd þótt ekki hefði blásið byrlega í réttstöðunni að þessu sinni, samanlagður árangur hans var 625 kg og þar með bæting á Íslandsmeti hans um fimm kg.

Aðspurður kveðst Benedikt ánægður með daginn. „Á meðan maður er að bæta sig er maður sáttur,“ segir Benedikt sem hefur glímt við lóðin frá 16 ára aldri en færði sig fyrst út í kraftlyftingar fyrir tveimur árum undir merkjum Massa í Njarðvík sem þrír fjórðu hlutar íslenskra keppenda á þessu Evrópumeistaramóti eru fulltrúar fyrir á ungverskri grund.

Kristleifur stóð við svardagann

Benedikt var ánægður með undirbúninginn fyrir mótið og ber Kristleifi Andréssyni, óopinberum þjálfara hópsins, vel söguna eins og aðrir keppendur hafa gert í viðtölum við mbl.is í vikunni sem er að líða. Raunar lofaði Kristleifur blaðamanni því á miðvikudaginn að allir íslensku keppendurnir skyldu setja met á mótinu og við það var staðið, þrjú heimsmet og sjö Íslandsmet lágu þar fyrir íslensku sveitinni.

„Bara bætingar,“ svarar Benedikt, spurður hinnar sígildu lokaspurningar um hvað nú sé fyrir stafni. „Ég ætla að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í master [öldunga] í nóvember og bara hafa góðan undirbúning fyrir það, ég ætla bara að hafa góðan undirbúning núna upp á að bæta mig helling, ég er búinn að vera að keppa svo mikið,“ segir Benedikt Björnsson að lokum, síðastur íslenskra keppenda á EM í Búdapest.

Réttstöðulyftan en þar var Benedikt ekkert allt of ánægður í …
Réttstöðulyftan en þar var Benedikt ekkert allt of ánægður í dag. Tvö Íslandsmet þó í höfn hjá honum, í beygju og samanlögðu. Ljósmynd/Caroline Hansen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert