Vona að Djokovic verði hleypt til landsins

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP/Karim Sahib

Forsvarsmenn Tennissambands Bandaríkjanna og Opna bandaríska meistaramótsins eru vongóðir um að Serbanum Novak Djokovic, verði hleypt til landsins svo honum sé unnt að taka þátt á Indian Wells og Miami mótunum í landinu.

Djokovic er ekki bólusettur fyrir kórónuveirunni og var af þeim sökum ekki kleyft að taka þátt á mótinu á síðasta ári, þar sem ferðamenn verða að sýna fram á að þeir hafi hlotið bólusetningu við veirunni.

Verður sú krafa í gildi á landamærum Bandaríkjanna að minnsta kosti fram til 10. apríl næstkomandi en Indian Wells og Miami mótin, tvö af stærstu tennismótum heims sem teljast þó ekki til eiginlegra stórmóta, fara bæði fram í mars.

Djokovic hefur sótt um sérstaka undanþágu til þess að geta tekið þátt á mótunum tveimur.

Opna bandaríska meistaramótið fer svo fram í ágúst og gæti Serbinn, sem er í efsta sæti heimslistans, tekið þar þátt að því gefnu að búið verði að afnema kröfuna um bólusetningu.

Hann bíður nú eftir svari við beiðni sinni um undanþágu, en Indian Wells-mótið hefst á mánudag og hefur Djokovic sagst ætla að draga sig úr keppni áður en dregið verður fari svo að henni verði hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert