Víkingurinn Guðmundur E. Stephensen er Íslandsmeistari karla í borðtennis eftir öruggan sigur á Magnúsi Gauta Úlfarssyni, BH, 4:0, í úrslitaleiknum á Strandgötu í Hafnarfirði í dag.
Guðmundur vann Magnús 11:7, 11:4, 11:8 og svo að lokum 11:2 í lotunum fjórum. Þetta er 21. Íslandsmeistaratitill Guðmundar en þetta er fyrsta mótið sem hann tekur þátt í í tíu ár.
Nevena Tasic úr Víkingi Reykjavík vann sinn þriðja Íslandsmeistaratitil með sigri á Sól Kristínardóttur Mixa, BH, 4:1, í dag.
Nevena vann fyrstu tvær loturnar, 11:7 og 11:9, en Sól svaraði í þriðju lotu og vann hana 13:11. Nevena vann hins vegar tvær síðustu loturnar 11:5 og 11:8 og leikinn í leiðinni.