Akureyringar Íslandsmeistarar

Leikmenn Skautafélags Akureyrar fagna Íslandsmeistaratitlinum eftir leikinn í kvöld.
Leikmenn Skautafélags Akureyrar fagna Íslandsmeistaratitlinum eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Skautafélag Akureyrar varð Íslandsmeistari í íshokkí kvenna í kvöld. SA tók á móti Fjölni í 3. leik úrslitakeppninnar í Skautahöllinni á Akureyri en SA hafði unnið tvo fyrri leikina, 1:0 og 4:2.

Norðankonur unnu nokkuð örugglega eftir jafnan leik lengi vel. Lokatölur urðu 5:1 en SA gerði út um leikinn í upphafi þriðja leikhlutans þegar liðið breytti stöðunni úr 2:0 í 4:0.

Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 1:0 fyrir SA en markið skoraði Hilma Bóel Bergsdóttir eftir nokkuð þunga sókn og góðar vörslur Birtu Júlíu Þorbjörnsdóttur í marki Fjölnis.

Fjölniskonur virtust slegnar út af laginu um stund en undir lok leikhlutans fengu þær þrjú góð færi. Teresa Snorradóttir komst tvisvar á auðan sjó en Shawlee Gaudreault í marki SA sá við henni.

Shawlee þurfti svo að taka á honum stóra sínum gegn Kolbrúnu Maríu Garðarsdóttir á lokamínútu leikhlutans eftir að Kolbrún María hafði spólað sig upp að marki SA.

Annar leikhlutinn var bráðfjörugur og á köflum hélt Fjölnir uppi stífri sókn en SA varðist vel. Leikurinn opnaðist svo töluvert og bæði lið fengu fjölmörg góð færi án þess að geta gert sér mat úr nokkru þeirra. Markverðirnir Birta Júlía og Shawlee vörðu báðar eins og berserkir.

Eitthvað varð þó undan að láta og undir lok leikhlutans skoraði Anna Sonja Ágústsdóttir annað mark SA. Pökkurinn skreið þá einhvern veginn fram hjá fjölda leikmanna alla leið í markið hjá Birtu.

Staðan var 2:0 þegar lokaleikhlutinn hófst og SA-konur komnar mjög langt með að sigla Íslandsmeistaratitlinum í höfn.

Segja má að norðankonur hafi endanlega gengið frá leiknum í upphafi þriðja leikhlutans en þá komu mörk frá Berglindi Rós Leifsdóttur og Sólrúnu Arnardóttur. Allt í einu var staðan orðin 4:0 og mótlætið nokkuð hjá Fjölni.

Inga Rakel Aradóttir bætti svo fimmta markinu við með þrumuskoti þar sem pökkurinn söng í markskeytunum. Á lokasekúndum leiksins náði Fjölnir loks að skora fram hjá Shawlee en Sigrún Agatha Árnadóttir setti það mark.

SA-konur fögnuðu vel og innilega í leikslok. Var þetta 22. Íslandsmeistaratitill félagsins og sá 17. í röð.

Mörk/stoðsendingar:

SA: Inga Rakel Aradóttir 1/1, Hilma Bóel Bergsdóttir 1/1, Berglind Leifsdóttir 1/1, Anna Sonja Ágústsdóttir 1/1, Sólrún Arnardóttir 1/0, Amanda Ýr Bjarnadóttir 0/2, Aðalheiður Ragnarsdóttir 0/1, Jónína Guðbjörnsdóttir 0/1.

Fjölnir: Sigrún Agatha Árnadóttir 1/0, Kristín Ingadóttir 0/1, Teresa Snorradóttir 0/1.

Refsimínútur:

SA: 2 mín.
Fjölnir: 4 mín.

SA 5:1 Fjölnir opna loka
60. mín. Sigrún Árnadóttir (Fjölnir) Mark 5:1. Aghata lagar stöðuna en það eru tíu sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert