Sprenging í þátttöku

Viktor Samúelsson var stigahæstur karla í klassískum kraftlyftingum.
Viktor Samúelsson var stigahæstur karla í klassískum kraftlyftingum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var langfjölmennasta mót Íslandssögunnar, rúmlega sjötíu keppendur, þetta hefur alltaf verið mun minna, yfirleitt eitthvað í kringum fjörutíu, eða rúmlega það, keppendur,“ segir Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, í samtali við mbl.is um Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum, hvort tveggja klassískum og með búnaði, sem haldið var í Miðgarði í Garðabæ á laugardaginn.

Segir Hinrik hreina sprengingu hafa orðið í þátttökunni og mörg Íslandsmet fallið. „Keppt er í þyngdarflokkum og svo veitt verðlaun fyrir stigahæstu keppendur karla og kvenna í klassík og svo í búnaði, en það var nú engin kona að keppa í búnaði núna,“ segir formaðurinn.

Keppt var á tveimur pöllum enda fjöldi þátttakenda meiri en …
Keppt var á tveimur pöllum enda fjöldi þátttakenda meiri en nokkru sinni á Íslandsmóti í kraftlyftingum. Ljósmynd/Aðsend

Kveður hann mikla athygli hafa vakið þegar hin gallharða Lucie Stefanikova hreppti stigabikar kvenna komin sjö mánuði á leið. „Það er afrekið sem stendur upp úr og sýnir bara hvað hún er öflug,“ segir Hinrik.

Alex Cambray Orrason var stigahæstur karla í kraftlyftingum með búnaði.
Alex Cambray Orrason var stigahæstur karla í kraftlyftingum með búnaði. Ljósmynd/Aðsend

Ekki þverfótað fyrir starfsfólki

Þrátt fyrir fjölda keppenda gekk framkvæmd mótsins vel. Keppt var á tveimur pöllum sem kallaði á mikinn fjölda starfsfólks, dómgæslu, stangarmenn og fleiri auk þess sem aðstoðarmenn keppenda voru eðlilega fjölmargir. „Það voru bara gjörsamlega allir í kraftlyftingaheiminum dregnir á flot til að vinna við þetta,“ segir Hinrik enn fremur.

Vaskur hópur lyftingamanna og -kvenna úr lyftingadeild Stjörnunnar.
Vaskur hópur lyftingamanna og -kvenna úr lyftingadeild Stjörnunnar. Ljósmynd/Aðsend

Þá var salurinn þétt setinn áhorfendum allan daginn sem Hinrik segir óvenjulegt á þessum mótum, kraftlyftingar séu greinilega á fljúgandi siglingu enda hefur nýliðun verið góð síðustu ár svo sem komið hefur fram í nýlegum viðtölum hvort tveggja við Hinrik og Auðun Jónsson en báðir hafa þeir verið mikið í kringum mót innanlands sem utan.

Þrír stigahæstu lyftarar mótsins voru áðurnefnd Lucie, Viktor Samúelsson og Alex Cambray Orrason en hann keppti í búnaði.

Hér má nálgast úrslitin á ÍM um helgina á heimasíðu Kraftlyftingasambandsins.

Lucie Stefanikova hreppti stigabikar kvenna þrátt fyrir að vera komin …
Lucie Stefanikova hreppti stigabikar kvenna þrátt fyrir að vera komin sjö mánuði á leið. Keppnisskapið þekkir engin landamæri. Ljósmynd/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert