Jónína Margrét Guðbjartsdóttir, leikjahæsta landsliðskona Íslands í íshokkí, hefur ákveðið að draga sig í hlé frá íslenska landsliðinu.
Þetta kemur fram á Akureyri.net.
Jónína er 42 ára gömul og hefur leikið með landsliðinu frá árinu 2005 en hún á 66 landsleiki að baki og hefur tvívegis unnið gullverðlaun með landsliðinu í neðri deildum heimsmeistaramótsins, árin 2008 og 2022.
Hún hefur leikið með Skautafélagi Akureyrar frá árinu 2000 og varð síðasta þriðjudagskvöld Íslandsmeistari með liðinu í 21. skipti. Í viðtalinu kemur fram að hún hafi rifið liðband í hné fyrir skömmu en náði samt að spila úrslitaleikina gegn Fjölni. Hún kveðst hins vegar ekki treysta sér til að fara með landsliðinu á heimsmeistaramótið í Mexíkó í næsta mánuði.
Jónína hyggst leika áfram með SA þó landsliðsskautarnir séu komnir á hilluna.