Vestri í úrslit

Franco Molina býr sig undir að smassa fyrir Vestra í …
Franco Molina býr sig undir að smassa fyrir Vestra í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Karlalið Vestra í blaki er búið að tryggja sér sæti í úrslitaleik Kjörísbikarsins um helgina eftir að hafa unnið frækinn sigur á KA, 3:1, í undanúrslitum bikarkeppninnar í Digranesi í kvöld.

Fyrsta hrina var æsispennandi og fór svo að KA vann hana naumlega, 26:24.

Önnur hrina var hins vegar eign Vestra, sem vann hana örugglega, 25:15.

Í þriðju hrinu var KA sterkari aðilinn lengst af og virtist eiga sigur í henni vísan. Akureyringar komust í 13:7 en Vestri kom frábærlega til baka og jafnaði metin í 18:18.

Áfram var KA með yfirhöndina í þriðju hrinu og náði 24:22 forystu. Enn gafst Vestri ekki upp og jafnaði metin í 25:25 og vann svo hrinuna 27:25.

Í fjórðu hrinu byrjaði KA betur áður en Vestri sneri taflinu við og komst í 19:15. KA svaraði vel fyrir sig og jafnaði metin í 20:20. Að lokum vann Vestri hins vegar hrinuna 25:23 og þar með leikinn 3:1.

Vestri mætir annað hvort ríkjandi bikarmeisturum Hamars eða Aftureldingu, en undanúrslitaleikur þeirra hefst klukkan 20.15 í Digranesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert