Sex íslenskir kastarar á sterkum mótum

Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir til úrslita annað kvöld.
Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir til úrslita annað kvöld. mbl.is/Hákon

Sex af bestu kösturum Íslands keppa erlendis um helgina, í Portúgal og Bandaríkjunum, og þar er Íslandsmethafinn í kúluvarpi, Erna Sóley Gunnarsdóttir, fremst í flokki.

Erna keppir annað kvöld á bandaríska háskólameistaramótinu innanhúss en það fer fram um helgina í Albuquerque í Nýju-Mexíkó. Hún á áttunda besta árangurinn í vetur af sextán keppendum alls staðar að úr bandarísku háskólunum sem þar keppa til úrslita. Erna hefur þríbætt Íslandsmetið innanhúss á þessu ári og kastaði 17,92 metra á svæðismeistaramótinu í síðasta mánuði þar sem hún bar sigur úr býtum.

Þá eru fimm kastarar mættir til leiks í Leiria í Portúgal þar sem hið árlega Evrópubikarkastmót Evrópu fer fram um helgina.

Hilmar Örn Jónsson keppir í sleggjukasti á morgun og þeir Guðni Valur Guðnason og Mímir Sigurðsson í kringlukasti.

Á sunnudaginn keppir Vigdís Jónsdóttir í sleggjukasti og Dagbjartur Daði Jónsson í spjótkasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert