Íslensku strákarnir burstuðu Bosníu á Akureyri

Íslensku strákarnir byrja vel á heimsmeistaramótinu á Akureyri.
Íslensku strákarnir byrja vel á heimsmeistaramótinu á Akureyri. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Ísland vann í kvöld stórsigur á Bosníu, 9:0, þegar þjóðirnar mættust í 3. deild heimsmeistaramóts U18 ára pilta í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.

Íslensku strákarnir fylgdu þar með eftir góðri byrjun á mótinu í gærkvöld, þegar þeir unnu Mexíkó, 5:3, eftir að hafa verið undir, 1:3, þegar síðasti leikhlutinn hófst.

Í kvöld tóku þeir forystuna gegn Bosníu eftir aðeins 24 sekúndur þegar Ormur Jónsson skoraði.

Staðan var 1:0 eftir fyrsta leikhluta en í öðrum hluta skoraði Arnar Helgi Kristjánsson, 2:0, og síðan gerði Ormur tvö mörk til viðbótar og staðan var þá orðin 4:0 eftir 34 mínútur.

Í síðasta hlutanum snjóaði mörkunum inn. Birkir Einisson og Viktor Mojzyszek skoruðu á fyrstu fjórum mínútunum, 6:0, og þeir Arnar Helgi og Hektor Hrólfsson skoruðu skömmu síðar með stuttu millibili, 8:0.

Ólafur Björgvinsson átti síðan lokaorðið þegar hann skoraði níunda mark Íslands hálfri mínútu fyrir leikslok.

Ísland er með sex stig og eina liðið sem er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir. Tyrkland, Mexíkó, Bosnía og Ísrael eru öll með þrjú stig en Lúxemborg er eina liðið án stiga.

Fyrr í dag vann Tyrkland stórsigur á Lúxemborg, 15:1, og Mexíkó vann Ísrael í hörkuleik, 3:2.

Í fyrstu umferðinni í gær vann Ísrael sigur á Tyrklandi, 3:1, og Bosnía vann Lúxemborg 6:0.

Á morgun er frídagur en á miðvikudag leikur Ísland við Tyrkland klukkan 20 um kvöldið. Á undan mætast Ísrael - Lúxemborg klukkan 13 og Mexíkó - Bosnía klukkan 16.30 en allir leikir mótsins fara fram í Skautahöllinni á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert