Strákarnir í U18 ára landsliðinu í íshokkí héldu áfram sigurgöngu sinni í A-riðli 3. deildar á heimsmeistaramótinu í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld með því að vinna öruggan sigur á Tyrkjum, 8:4.
Eftir þrjár umferðir er Ísland eina liðið með fullt hús og er með níu stig. Ísrael og Mexíkó eru með sex stig, Tyrkland og Bosnía þrjú stig en Lúxemborg er án stiga.
Fyrr í dag vann Ísrael yfirburðasigur á Lúxemborg, 18:0, og Mexíkó sigraði Bosníu, 7:2.
Eins og staðan er núna stefnir allt í úrslitaleik Íslands og Ísraels í lokaumferðinni á laugardaginn, nema ísraelska liðið nái ekki að vinna Bosníu í venjulegum leiktíma í næstsíðustu umferðinni annað kvöld. Þá leikur Ísland gegn Lúxemborg og á þar sigur vísan gegn langlakasta liði riðilsins.
Uni Blöndal og Arnar Helgi Kristjánsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Ísland í kvöld, Kristján Jóhannesson og Ormur Jónsson eitt hvor.
Staðan var 3:1 eftir fyrsta leikhluta, 6:3 eftir annan leikhluta og íslenska liðið komst í 8:3 í þeim þriðja og síðasta.