Íslenski skíðakappinn Tobias Hansen gerði sér lítið fyrir og sigraði á alþjóðlegu stigamóti í stórsvigi í Voss í Noregi um síðustu helgi.
Tobias, sem er 19 ára gamall, fór fyrri ferð á 1:19,28 mínútum og síðari ferð sína á 1:18,08, besta tíma mótsins.
Samanlagður tími hans var 2:37,36 sem nægði til þess að tryggja Tobiasi frækinn sigur.
Norðmaðurinn Elias Vik hafnaði í öðru sæti á tímanum 2:39,24, tæplega tveimur sekúndum á eftir Tobiasi.
Með sigrinum á mótinu féllu 42,73 FIS stig honum í skaut.
Skíðasamband Íslands greinir frá því að Tobias muni taka þátt í nokkrum mótum til viðbótar á næstunni, mestmegnis í Svíþjóð og Noregi.